Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrotabú bræðra dæmd til milljarða greiðslu

17.05.2018 - 16:32
Mynd með færslu
Steingrímur og Karl Wernerssynir. Mynd: RÚV
Hæstiréttur dæmdi þrotabú bræðranna Karls og Steingríms Wernerssonar í dag til að greiða þrotabúi Milestone rúmlega fimm milljarða króna. Upphæðin er til komin vegna kaupa bræðranna á hlut Ingunnar Gyðu Wernersdóttur, systur þeirra, í fyrirtækinu. Bræðurnir létu fyrirtækið greiða fyrir hlutabréfakaupin án þess að tryggja hagsmuni félagsins.

Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að Karl og Steingrímur bæru ábyrgð á því að Milestone var látið fjármagna kaup bræðranna á hlutabréfum systur þeirra í fyrirtækinu. Hæstiréttur sakfelldi þá líka fyrir lögbrot vegna þeirra viðskipta í öðru dómsmáli. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur áður, að Ingunn Gyða bæri ekki ábyrgð á greiðslunum og væri því ekki skaðabótaskyld vegna þeirra.

Milestone stefndi bræðrunum og Guðmundi Ólasyni, fyrrverandi forstjóra Milestone, til skaðabótagreiðslu árið 2010. Málið frestaðist vegna sakamáls sem sérstakur saksóknari rak gegn mönnunum. Réttað var í skaðabótamáli Milestone eftir að sakamálinu lauk og voru þeir Karl og Steingrímur, auk Guðmundar, dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone rúma fimm milljarða króna í bætur. Karl og Steingrímur áfrýjuðu dómnum báðir til Hæstaréttar. Báðir voru lýstir gjaldþrota áður en málinu lauk og tóku þrotabú þeirra þá við málarekstrinum. Guðmundur áfrýjaði ekki. Hann hefur líka verið lýstur gjaldþrota.

Karl krafðist þess meðal annars að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur yrði ómerktur. Hann taldi að á sig hefði hallað þar sem hann mátti ekki leggja fram ný málsgögn eftir að gagnaöflun hafði verið lýst lokið. Samt hefði þrotabú Milestone mátt leggja fram afrit af dómi Hæstaréttar. Þar voru Karl og Guðmundur sakfelldir fyrir umboðssvik í störfum sínum hjá Milestone og Steingrímur fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Hæstiréttur vísaði þessum rökum Karls á bug, sagði að dómara hefði borið að hlutast til um að endurrit nýfallins hæstaréttardómsins yrði lagt fram í dómsmálinu. Karl hefði hins vegar haft meira en fimm og hálft ár til að leggja fram málsskjöl.