Þrot WOW hefur áhrif á atvinnuleysitölur í maí

26.04.2019 - 13:46
Mynd með færslu
Um fimmtungur heimsókna lögreglu á tímabilinu hefur verið á byggingarsvæði. Mynd: fréttir
Atvinnuleysi var 2,9 prósent í marsmánuði. Það er 0,3 prósentustigum lægra en í febrúar. Athygli vekur að atvinnuleysi skuli ekki mælast meira milli mánaða eftir gjaldþrot WOW air. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að ástæða þess sé sú að það verði fyrst í maí sem afleiðingar gjaldþrotsins koma í ljós.

Hlutfall starfandi fólks jókst um 2,1 prósentustig milli febrúar og mars og fór í 80,2 prósent. Atvinnulausir karlar eru 3.900 eða 3,5 prósent. Það er 1,3 prósentustigum meira en hlutfall kvenna sem eru 2.100. Karl segir að muninn á atvinnuleysi kynjanna megi rekja til þess að mikið hefur verið um uppsagnir í  byggingatengdum greinum og ferðaþjónustu í vetur. Mjög stór hluti þeirra karlmanna sem hafa leitað til Vinnumálastofnunar í vetur séu útlendingar. Þeir séu sá hópur sem standi hvað höllustum fæti á vinnumarkaði og sé jafnan sagt fyrst upp. Þá segir Karl að búferlaflutningar hingað til lands hafi aukist meira en framboð starfa síðustu tvö árin og það hafi ýtt frekar undir erfiða stöðu útlendinga á vinnumarkaði. 

Fleiri atvinnlausir nú en á sama tíma í fyrra

Ef litið er til marsmánaðar í fyrra hefur atvinnulausum fjölgað um 1.400, úr 4.600 í 6.000. Heildarfjöldi þeirra sem eru ekki á vinnumarkaði er 46.300, sami fjöldi og í mars í fyrra. Fjöldi atvinnubærs fólks fjölgaði um 5.300 manns og hefur hlutfall þess af mannfjölda hækkað um 0,4 prósentustig. Starfandi fólki hefur fjölgað um 4.000 manns sem er 0,1 prósentustigi minna en fyrir ári síðan.

Atvinnuþátttaka í mars var 82,7 prósent, 1,9 prósentustigum meira en í febrúar. Á vef Hagstofunnar kemur fram að atvinnuþátttaka standi í stað þegar horft er til síðustu sex mánaða. Hlutfall starfandi hefur lækkað lítillega, eða um 0,1 prósentustig.

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi