Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þröstur Leó valinn maður ársins

31.12.2015 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þröstur Leó Gunnarsson, leikari og sjómaður, var valinn maður ársins af hlustendum Rásar tvö. Þröstur bjargaði tveimur skipsfélögum sínum þegar fiskibáturinn Jón Hákon frá Bíldudal sökk út af Aðalvík sjöunda júlí í sumar.

Rætt var við Þröst í Kastljósi í haust en þar kom fram að hefði Þröstur ekki komist á kjöl bátsins hefði enginn komist lífs af.

Þröstur Leó segist þakklátur fyrir þessa viðurkenningu og fagnar þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um öryggismál sjómanna. „Við erum ennþá að berjast fyrir því að báturinn verði tekinn upp og að öll okkar öryggismál verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar af því að það hefur greinilega komið í ljós að þessi búnaður sem í flestum tilfellum virkar og hefur bjargað mannslífum en það á ekkert að vera í boði að þetta klikki, eða virki ekki. Það er bara ekki boðlegt,“ segir Þröstur en hann var einnig valinn maður ársins af hlustendum og lesendum Bylgjunnar og Vísis. 

Hann furðar sig á því hversu langan tíma rannsókn slyssins hefur tekið. „Ég held að það hafi bara verið paník í öllu þessu kerfi. Ég veit ekki hvað er í gangi, ég er ekki einu sinni búinn að fara í sjópróf og það eru hvað fimm eða sex mánuðir síðan þetta skeði þannig að maður veit ekki hvað er að klikka eða hvað menn eru hræddir við.“ 

Tíu voru tilnefndir sem komust í lokaúrtakið. Björk Guðmundsdóttir, fyrir baráttu sína í þágu íslenskrar náttúru, Fanney Björk Ásbjörnsdóttir sem barðist við ríkið til að fá ný lyf við lifrarbólgu C, Guðmundur Viðar Berg og Halldór Sveinsson lögreglumenn sem björguðu tveimur drengjum frá drukknun í Hafnarfirði, Kári Stefánsson sem hefur barist fyrir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, Hagaskólastelpur sem sigruðu í hæfileikakeppni grunnskólanna, Hermann Ragnarsson hjálparhella albanskrar fjölskyldu sem var vísað úr landi, Sigrún Geirsdóttir sem synti fyrst kvenna yfir Ermarsund, Sævar Helgi Bragason Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, Þórunn Ólafsdóttir fyrir hjálparstarf á grísku eyjunni Lesbos og Þröstur Leó Gunnarsson leikari og sjómaður. Hagaskólastelpur urðu í þriðja sæti og Fanney Björk Ásbjörnsdóttir í öðru sæti.