Þroskandi að fara í fjárlög án ríkisstjórnar

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Ég óttast að þjóðstjórnarmynstrið væri ekki gagnlegt því það þýðir að við myndum ekki gera neitt. Þá er betra að kjósa aftur eða setja utanþingsstjórn,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, eftir að ljóst varð að ekki yrði af formlegum stjórnarmyndunarviðræðum undir hennar stjórn. Hún hyggst skila stjórnarmyndunarumboðinu til forseta klukkan 17.

Birgitta telur að það gæti verið þroskandi að fara gegnum fjárlögin án þess að ríkisstjórn hafi verið mynduð. Undir það taka Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. „Ég held að það væri ekki slæmt í þeirri stöðu sem nú er uppi. Við erum búin að fara nokkra hringi í stjórnarmyndunarviðræðum og kannski eigum við að nýta okkur það að virkja Alþingi til að reyna að ná saman um mál. Síðan verðum við bara að sjá hvað gerist,“ segir Katrín. 

„Það er auðvitað starfsstjórn og þing er komið saman. Það er að mörgu leyti spennandi verkefni, ef maður hugsar það lýðræðislega, að þingið taki á fjárlögum núna, án þess að það sé skýr meirihluti. Á maður ekki bara að óska þess að okkur gangi vel með það,“ segir Óttarr. 

Birgitta segir að samræður flokkanna fimm hafi verið gagnlegar og hægt væri að byggja á þeirri vinnu. „Þetta er gagnlegt inn í framtíðina, hvað sem gerist. [...] Núna fáum við tækifæri til að sýna að við getum unnið á annan hátt. Það eru mörg stór og erfið mál sem við erum að fara með í gegnum þingið. Fjárlög eru burðarbiti stjórnsýslunnar, allt gengur út á hver fær hvað og hvernig það er fjármagnað. Nú reynir á aðra aðferðafræði og ég vona að við getum nýtt okkur það á meðan við bíðum eftir því að hér verði komið á starfhæfri ríkisstjórn.“

Katrín tekur undir með Birgittu að langt hafi verið milli flokka. Katrín nefnir sérstaklega að svo hafi verið varðandi framtíðarsýn á útgjöld og samneyslu og leiðum til að afla tekna fyrir þau útgjöld. Sjávarútvegsmálin hafi einnig verið óleyst. „Þannig að það var mat okkar allra við að við kæmumst ekki lengra að þessu sinni. Þetta hefur verið okkar hugmynd um ákjósanlegasta stjórnarsamstarfið og það er mjög leiðinlegt að við höfum ekki náð saman. Það eru auðvitað risastór mál undir og flokkarnir eru ólíkir.“ 

Óttarr segir að ríkisfjármálin og umbætur í sjávarútvegi og landbúnaði hafi reynst erfiðust. Viðræðurnar hafi verið góðar og margt hafi skýrst. „En á endanum var sameiginleg niðurstaða að það væri eðlilegt fyrir okkur að hanga ekki lengur á þessum viðræðum á meðan menn væru ekki sammála um trúna á að það væri hægt að ná saman.“

Óttarr hefur verið samfellt í stjórnarmyndunarviðræðum nánast frá kosningum. „Bjartsýnismaðurinn í mér er kannski aðeins farinn að missa trúna á sjálfum sér.  Ég á satt að segja dálítíð erfitt með að sjá hvað er næsta skrefið.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi