Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrjú ný ebólu-smit í Mbandaka

19.05.2018 - 05:30
epa06744508 A handout photo made available by UNICEF shows health workers being sprayed with chlorine after leaving the isolation ward at Bikoro Hospital, where suspected Ebola patients are diagnosed and treated, in Bikoro, The Democratic Republic Of The
Starfsfólk á spítalanum í Bikoro, helsta bæ samnefnds héraðs, fer í gegnum sótthreinsun. Flest ebólutilfellin í Austur-Kongó í ár hafa komið upp í Bikoro og nágrenni, og eru sjúklingar meðhöndlaðir á sjúkrahúsinu þar. Bikoro er nokkuð suður af Mbandaka. Mynd: EPA-EFE - UNICEF
Þrjú ný tilfelli af ebólu-smiti hafa verið staðfest í hafnarborginni Mbandaka á bökkum Kongó-fljóts í Austur-Kongó. Heilbrigðisyfirvöld í landinu greina frá þessu. Ebólufaraldur hefur verið í uppsiglingu í Austur-Kongó síðustu vikur og hafa 23 dáið af völdum ebólu síðan í apríl og nokkrir tugir til viðbótar smitast. Til skamms tíma var útbreiðsla veirunnar takmörkuð við hinar dreifðari byggðir en fyrr í þessari viku greindist fyrsta tilfellið í hinni þéttbýlu Mbandaka.

Það eykur verulega líkurnar á því að raunverulegur faraldur gjósi upp. Mjög þéttbýlt er í Mbandaka, sem eykur smithættu manna á milli, og auk þess er mikill samgangur milli hennar og höfuðborgarinnar Kinshasa, þar sem stöðugar skipasamgöngur eru milli borganna um Kongó-fljótið.

Ebólusmit skjóta reglulega upp kollinum í Austur-Kongó, eða Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eins og það heitir formlega. Er þetta níunda skiptið sem ebóla greinist í landinu frá því hún greindist þar fyrst, árið 1979, og ekki er lengra síðan en í fyrra að þar geisaði síðast slíkur faraldur.