Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrjótar „stálu“ hugsanlega síðu af lögreglunni

07.10.2018 - 12:04
Theódór R. Gíslason
tæknistjóri Syndis

Hlynur Óskar Guðmundsson
sérfræðingur í tölvuöryggi hjá Syndis

Björn Jónsson
deildarstjóri upplýsingatæknideildar LSP

Úr fréttum 31. 11. 2013

Daði Gunnarsson
rannsóknarlögreglumaður
Kveikur
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur svikapóst, sem sendur var út í nafni hennar í gærkvöld, mjög alvarlega. Þetta segir Daði Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tölvurannsóknardeild lögreglunnar. Málið er í rannsókn en svikapósturinn þykir mjög vel gerður og hafa fjölmargir sett sig í samband við lögregluna. Lögreglan ræsti út fólk í nótt til að vinna við rannsókn málsins.

Fjölmargir fengu í gær tölvupóst þar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu virtist boða viðkomandi í skýrslutöku. Textinn var svohljóðandi:

Þér hefur borist þessi tölvupóstur frá Rannsóknalögreglunni á Höfuðborgasvæðinu vegna boðs í skýrslutöku þann 30. Október klukkan 17:00, Lögreglustöðinni á Hverfisgötu 113.

Þér ber skylda að mæta og við krefjumst þess að það sé mætt tímanlega og ef ekki er mætt má búast við handtökuskipun ef þess þarf, það fer hinsvegar eftir alvarleika hvers máls og um hvað hvert mál varðar.
Þú átt rétt á verjanda og hafa hann á meðan skýrslutöku stendur, ef þess ber að nýta má huga að því tímanlega.

Hægt er að fara á vefslóð okkar og nálgast gögn um útgefna kæru og boðs í skýrslutöku með því að skrá inn kennitölu og auðkennisnúmer sem er meðfylgjandi í þessum tölvupósti.

Jafnframt er tekið fram að vegna nýjunga í kerfi LRH séu boðanir og kærur gefnar út á rafrænu formi og sendar út í tölvupóstfang landsmanna.

„Við boðum ekki fólk í skýrslutökur með tölvupósti heldur hringjum í það eða sækjum það,“ segir Daði í samtali við fréttastofu. Hann segir málið litið alvarlegum augum og sjálfur hafi hann verið ræstur út í gærkvöld þegar pósturinn fór á flug. Mjög margir settu sig í samband við lögregluna strax í gærkvöld og ljóst að svikapósturinn hefur farið mjög víða. „Þetta er mjög stórt, sennilega eitt stærsta málið af þessu tagi þar sem svona svikapóstar koma við sögu.“

Daði segir að vefsíðan sem hafi verið útbúin sé mjög vel gerð og flókin. Hugsanlega hafi tölvuþrjótarnir „stolið“ vefsíðu af lögreglunni eða speglað til að láta svikapóstinn líta sem best út.  Hann segir rannsóknina þó ekki hafa leitt neitt í ljós hvaðan svikapósturinn kemur né hvað það er sem tölvuþrjótarnir sækjast í.  Á vefsíðunni Snerpu er þeirri tilgátu varpað fram að afar líklegt sé að þrjótarnir vilji taka gögn notendans í gíslingu, læsa þeim með dulkóðun og notandinn þarf þá að greiða lausnargjald til að ná gögnum til baka. 

Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan hafi farið strax í það að láta fólk vita að pósturinn kæmi ekki frá henni. Hann segir að sjálfsögðu sé það litið alvarlegri augum þegar stofnun eins og lögreglan sé notuð í svona svikum. „Það er verið að nota okkar traust til að svindla á fólki og það finnst okkur griðarlega sárt.“

Í Facebook-hópnum Netöryggi hafa menn velt vöngum yfir svikapóstinum en birt mynd af síðunni sem birtist þegar fólk smellir á tengilinn í tölvupóstinum. Af þeirri mynd að dæma er mjög erfitt fyrir hinn almenna notenda að sjá hvort pósturinn sé frá lögreglunni eða ekki.  Augljóslega hafi mikil vinna verið lögð í póstinn.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV