Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þrjár milljónir til Serbíu og Bosníu

20.05.2014 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Utanríkisráðuneytið ætlar að veita þremur milljónum króna í neyðaraðstoð til Serbíu og Bosníu-Hersegóvínu. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að hugur þeirra sé þeim fjölmörgu sem hafi beðið tjón eða misst ástvini í flóðunum.

Í tilkynningunni segir að fjármunnirnir verði notaðir til að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir á svæðinu vegna flóða eftir mesta úrfelli síðan mælingar hófust fyrir 120 árum.

Þá kemur enn fremur fram að stór landssvæði séu undir vatni – um 40% lands í Bosníu og Hersegóvínu en um 15% í Serbíu. Tugir manns hafi farist af völdum flóðanna og er talið að yfir hundrað þúsund manns hafi hrakist af heimilum sínum eða verið flutt á brott vegna flóðanna. „Þá er yfir milljón manns án drykkjarhæfs vatns og hefst fólk við í neyðarskýlum og bráðabirgðahúsnæði,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Framlögin renna til landsfélaga Rauða krossins á flóðasvæðinu sem sinna hjálpastarfi.