Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þrjár blokkir í eigu ÍLS standa auðar

21.03.2013 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Næstum þrjár blokkir, sem eru að mestu leyti í eigu Íbúðalánasjóðs, standa auðar á Selfossi. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, er undrandi á seinagangi sjóðsins við koma þessum íbúðum á markað. Mikil þörf sé fyrir íbúðarhúsnæði á Selfossi, bæði á leigumarkaði og í félagslega kerfinu.

Málið var rætt í bæjarráði Árborgar í dag.  Þar kemur fram að í júlí í fyrra hafi fréttir verið fluttar af því að selja ætti íbúðir í eigu Íbúðalánasjoðs til leigufélaga. Meðal annars hafi verið rætt um þrjár heilar blokkir á Selfossi. Nú séu átta mánuðir liðnir og ekkert gerst í málinu.  Bæjarráð Árborgar undrast þennan seinagang sjóðsins enda sé skortur á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu.

Eyþór segir í samtali við vef RÚV að hann hafi alltaf haft það á tilfinningunni að gengið yrði í þetta mál strax. Það sé hins vegar ekki reyndin og nú hafi myndast mikill eftirspurn eftir húsnæði á leigumarkaðinum, raunar svo mikil að ungt fólk frá Selfossi hefur þurft frá að hverfa þar sem það fékk ekki húsnæði. „Ég veit til þess að íbúðir sem hafi verið auglýstar til leigu á Selfossi hafi verið farnar á innan við klukkutíma.“

Eyþór segir að einnig sé mikil eftirspurn í félagslega kerfinu, þar hafi myndast langur biðlisti.„Þetta kemur kannski vel út í excel en ekki hjá okkur,“ segir Eyþór.