Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þrír sóttu um dómarastöðu við Hæstarétt

07.08.2015 - 15:47
Mynd með færslu
Á myndinni eru málverk sem hanga í húsakynnum Hæstaréttar. Mynd: rúv
Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson sóttu um embætti hæstaréttadómara en stefnt er að því að skipa í embættið frá og með 1. október. Innanríkisráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar um miðjan júli eftir að ákveðið var að fjölga dómurum tímabundið um einn.

Dómarar við Hæstarétt hafa verið níu frá því í mars á síðasta ári og samþykkti Alþingi í vor að fjölga þeim um einn. Starfandi dómarar við réttinn verða tíu fram til ársins 2017 en eftir þann tíma verður ekki skipað í embætti sem losna og þannig fækkar dómurum aftur.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði í samtali við fréttastofu í síðasta mánuði að það væri vissulega tímabært að sjá fleiri konur í Hæstarétti og það væri vel við hæfi að þær myndu allavega sækjast eftir því.

Ingveldur Einarsdóttir er eina konan í hópi umsækjenda - hún var settur dómari við réttin árið 2012 til að gegn embætti Páls Hreinssonar meðan hann gegni dómarastarfi við EFTA-dómstólinn.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins við frumvarp um fjölgun dómara kom fram að kostnaður við einn dómara í Hæstarétti næmi 22 milljónum króna á ári.