Steypiregn hefur valdið vatnavöxtum og flóðum tvær helgar í röð í sunnanverðu Frakklandi. Sex manns fórust í flóðum þar syðra fyrir rúmri viku og tveir til viðbótar nú um helgina. Mynd: epa
Þrír björgunarsveitarmenn fórust þegar þyrla þeirra hrapaði í nágrenni hafnarborgarinnar Marseille í Suður-Frakklandi í gærkvöld. Þremenningarnir voru í könnunar- og björgunarleiðangri á flóðasvæðum í Var-héraði á frönsku Rívíerunni, þar sem tveir menn drukknuðu í gær. Flak þyrlunnar og lík þremenninganna fundust svo um hálftvö aðfaranótt mánudags að staðartíma, nærri smábænum Le Rove. Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins.
Úrhellisrigning var á Rívíerunni sunnanverðri um helgina og rauð viðvörun í gildi vegna flóðahættu í héruðunum Var og Alpes-Maritimes. Fjárhirðir í fyrrnefnda héraðinu drukknaði þegar hann freistaði þess að fara á jeppa yfir á í miklum vexti, til að sinna hjörð sinni. Vatnsflaumurinn hreif jeppann með sér og fannst fjárhirðirinn drukknaður í bílnum nokkur hundruð metrum neðar í ánni.
Eigandi hestabúgarðs í héraðinu drukknaði líka í ólgandi straumvatni þar sem hann var að gæta að stóði sínu. Flóðin ollu talsverðum usla í héruðunum tveimur, samgöngur röskuðust og fjölda menningar- og íþróttaviðburða var aflýst vegna veðurs og vatnavaxta.
Aðeins er vika síðan sex manns létu lífið vegna úrhellisrigninga og flóða í Var-héraði.