
Þrír fjórðu Íslendinga hlynntir líknardrápi
Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi fékk Maskínu til að kanna afstöðu fólks til ýmissa lífsskoðana og trúarlegra málefna. Innan við helmingur Íslendinga telur sig vera trúaðan, samkvæmt könnuninni. Mjög mikill munur er á trú fólks eftir aldurshópum og stjórnmálaskoðunum. Miklu færri í yngsta aldurshópnum telja sig trúaða en í þeim elsta. Þá eru framsóknarmenn trúaðastir en stuðningsmenn Bjartrar framtíðar síst trúaðir.
Einnig var spurt: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi?“ 75% sögðust hlynnt því, en rúmlega 7% andvíg. Ekki er marktækur munur á afstöðu kynjanna.
Stuðningurinn við líknardráp er mestur meðal yngsta fólksins, rúmlega 88% fólks yngra en 25 ára segjast hlynnt því en 0,0% andvíg. Hjá 55 ára og eldri segjast tæplega 66% fylgjandi, en tæplega 14% andvíg.
Samkvæmt könnuninni er mikill stuðningur við líknardráp meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka. Mestur er hann hjá fylgismönnum Pírata, tæplega 85%, en minnstur hjá stuðningsmönnum Framsóknarflokksins, tæplega 68%. Þeir sem segjast ekki vera trúaðir eru líklegri til að styðja líknardráp en þeir sem trúaðir eru. Þó segjast nærri tveir þriðju trúaðra vera fylgjandi líknardrápi.