Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þrír fjórðu Íslendinga hlynntir líknardrápi

13.01.2016 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: Erik Söderström - Flickr
Líknardráp nýtur stuðnings mikils meirihluta Íslendinga, ef marka má nýja könnun. Í yngsta aldurshópnum er yfirgnæfandi stuðningur við líknardráp.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi fékk Maskínu til að kanna afstöðu fólks til ýmissa lífsskoðana og trúarlegra málefna. Innan við helmingur Íslendinga telur sig vera trúaðan, samkvæmt könnuninni. Mjög mikill munur er á trú fólks eftir aldurshópum og stjórnmálaskoðunum. Miklu færri í yngsta aldurshópnum telja sig trúaða en í þeim elsta. Þá eru framsóknarmenn trúaðastir en stuðningsmenn Bjartrar framtíðar síst trúaðir.

Einnig var spurt: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi?“ 75% sögðust hlynnt því, en rúmlega 7% andvíg. Ekki er marktækur munur á afstöðu kynjanna.

Stuðningurinn við líknardráp er mestur meðal yngsta fólksins, rúmlega 88% fólks yngra en 25 ára segjast hlynnt því en 0,0% andvíg. Hjá 55 ára og eldri segjast tæplega 66% fylgjandi, en tæplega 14% andvíg.

Samkvæmt könnuninni er mikill stuðningur við líknardráp meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka. Mestur er hann hjá fylgismönnum Pírata, tæplega 85%, en minnstur hjá stuðningsmönnum Framsóknarflokksins, tæplega 68%. Þeir sem segjast ekki vera trúaðir eru líklegri til að styðja líknardráp en þeir sem trúaðir eru. Þó segjast nærri tveir þriðju trúaðra vera fylgjandi líknardrápi.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV