Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Þríhnúkagígur slær í gegn

28.06.2012 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Hátt í fjörutíu erlendir blaðamenn og fimm erlendar sjónvarpsstöðvar hafa farið niður í Þríhnúkagíg að undanförnu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Inside the Volcano segir gíginn óslípaðan demant sem geti haft jafnmikið aðdráttarafl og Bláa lónið.

Tvær vikur eru síðan að fyrirtækið Inside The Volcano fór að lóðsa ferðamenn niður gíginn. Björn Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að ferðamennirnir hafi ekki verið mjög margir en erlendir blaðamenn og sjónvarpsstöðvar hafi sýnt gígnum mikla athygli.

Björn segir að eins og nú sé háttað komist takmarkaður fjöldi í ferðirnar niður gíginn. Á teikniborðinu séu hins vegar hugmyndir um að byggja göng inn í gíginn og búa þannig til ákjósanlegan ferðamannastað. Hann telur að Þríhnúkagígur hafi allt til að bera til hafa mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.