Þriggja krónu rúnstykki selt á 160 krónur

14.03.2019 - 10:33
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea. - Mynd: RÚV / RÚV
Fingurbjörg af kokkteilsósu kostar allt að þrjú hundruð krónur en kostnaðurinn er kannski tíu eða fimmtán krónur, segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Hann fór hörðum orðum um verðlagningu á veitingastöðum og bakaríum á ráðstefnu Alþýðusambandsins um matarverð í morgun. Þá nefndi hann verð á rúnstykkjum í bakaríum sem kosti 100-160 krónur en hráefniskostnaður þeirra sé 3-6 krónur. Afleiðingin er sú segir Þórarinn, að fólk kaupir sér brauð og bakkelsi í stórmörkuðum.

„Raunkostnaður virðist vera algjört aukaatriði. Fingurbjörg af kokteilsósu, sem allir vita að er í grunninn majones og tómatsósa, kostar allt að þrjú hundruð krónur en kostnaðurinn er kannski tíu eða fimmtán krónur. Þetta þekkja allir sem fá sér hamborgara. Rauðlaukur sem aukaálegg á pítsu. Ég fór að skoða nokkra matseðla í vikunni og ég sá 600 króna verð á rauðlauk. Þetta er svo yfirgengilegt að það er útilokað að réttlæta þetta. Laukur er eitt alódýrasta hráefni sem hægt er að finna. Kílóverðið er undir 300 krónum ef maður tekur tillit til rýrnunar. Ef maður miðar við 40 grömm á pítsuna þá er hráefniskostnaður 11-12 krónur en menn rukka 600 krónur,“ sagði Þórarinn í erindi sínu á morgunverðarfundi Verðlagseftirlits Alþýðusambandsins og Neytendasamtakanna Af hverju er verðlag á matvöru á Íslandi svona hátt?

Þórarinn er lærður bakari og kom að stofnun Dominos. Hann hefur stýrt IKEA frá 2005.  Þórarinn segist hafa tekið þá ákvörðun, þegar hann var hjá Dominos, að vera í rekstri með hagnað sem er 20% af 8 milljónum en 80% af 2 milljónum. „Niðurstaðan er sú sama í krónum talið en við erum að tala um sitt hvort rekstrarformið,“ segir Þórarinn.

Saga af ís

Þá tók Þórarinn dæmisögu af verði á ís í brauðformi. „Árið 2006 kostaði ís í brauðformi 50 krónur í IKEA. Eins og gefur að skila var framlegðin af hverjum ís ekkert voðalega mikil. Það var uppi umræða um það að hækka ísinn um tíu krónur vegna launaþróunar og hækkunar á aðföngum. Stóra vandamálið var það að við vorum með þrjátíu fermetra stórt segl hangandi með mynd af ísnum og verðinu. Það kostaði 500 þúsund krónur að skipta um seglið. Það þýddi það að ég þurfti að selja 50.000 ísa á nýju verði bara til að borga upp seglið og á þessum tíma voru 50.000 ísar rúmlega árssalan hjá mér. Ég tók því þá ákvörðun að hækka ekki og sætti mig við lækkandi framlegð. Árið eftir var sama umræða aftur og aftur árið þar á eftir. Það var ekki fyrr en 2010 að skrefið var stigið að fullu og þá hækkaði ég ísinn um 20 krónur úr 50 í 70. Neytendasamtök þess tíma brugðust ókvæða við. Ég var húðskammaður fyrir að hækka um 40%. Algjört aukaatriði að ís kostaði almennt milli 300 og 400 krónur og ekki var tekið tillit til þess að það var ekki búið að hækka verðið í mörg ár. Lærdómurinn sem menn geta dregið af þessu er að það er best að hækka nógu djöfulli oft og lítið í einu,“ segir Þórarinn. Hann hvetur Alþýðusambandið til þess að vanda sig í verðlagseftirliti. 

Veitingasala fyrir 4 milljónir króna á dag

Þórarinn segist vera með lág verð á heilanum.  „Það er með vissum ólíkindum hvernig samspil verðs og magns getur gerbreytt öllu. Til þess að setja hlutina í samhengi þá var mánaðarsalan á veitingasvæði IKEA um 4 milljónir árið sem ég byrjaði en það er þó nokkuð undir dagssölu í dag,“ segir Þórarinn. 

Þá tók Þórarinn fleiri dæmi af verðlagningu á veitingastöðum.

„Kaffibolli, jafnvelt uppáhellt kaffi 5-700 krónur en hráefnisverð á kaffibolla er undir 30 krónur. Algent verð á hálfslítra gosdrykkjum sem kosta 60-70 krónur í innkaupum er tæpar 400 krónur á greiðasölum landsins og ennþá hærra á veitingastöðum. Bjórflaska sem kostar 200 krónur í innkaupum er seld á vel yfir 1000 krónur. Kökur og brauð, oftar en ekki keypt af heildsölum, skorið niður og hent inni í ofn. Verðlagning er þannig að fyrsta sneiðin borgar heildarinnkaupin.“

Gáfnafari og verðvitund fólks ítrekað misboðið

„Í mínum huga er nákvæmlega ekkert sem réttlætir þessa verðlagningu. Í dag er svo komið að íslenskum veitingamönnum hefur nánast tekist að koma því þannig fyrir með verðlagningu, að almennir Íslendingar sem ættu að mynda hryggjarstykki viðskiptavina þeir sneiða einfaldlega hjá þeim og eru að stórum hluta hættir að fara út að borða. Það er komið fram við þá eins og þeir séu einnota. Gáfnafari þeirra og verðvitund er ítrekað misboðið. Hér er verið að ala upp heila kynslóð Íslendinga sem varla þekkir það að fara út að borða,“ segir Þórarinn.

Með því að lækka verð fjölgi viðskiptavinum. Framleiðni starfsmanna aukist og þannig verði launakostnaður lægra hlutfall í rekstri. Þá vitnaði Þórarinn til nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar um stöðu veitingahúsa. „Tímalaunin eru ekki stóra málið í rekstrinum heldur nýting starfsmanna. Það er gríðarlega dýrt að vera með kokk og þjón í vinnu þegar lítið er að gera og þá er launakostnaður mögulega meiri en veltan. Bara við það að tvöfalda umsvifin lækkar launahlutfallið sem því nemur því það þarf ekki að bæta við mannskap,“ segir Þórarinn bendir á að launakostnaður veitingastaðar IKEA sé undir 30%. Veltan sé tæpir tveir milljarðar króna.

Góð byrjun að lækka verð um helming

Þá segist Þórarinn ekki vera að tala um það menn þurfi að lækka verð í IKEA-verð. „Góð byrjun væri að lækka um helming,“ segir Þórarinn. „Veitingamenn eru ekki okrarar að upplagi. Þeir eru bara á kolvitlausum stað. Nú ef veitingamenn eru harðir á því að leyfa mér að sitja einum að þessu, þessum risastóra hópi almennings sem lætur ekki bjóða sér of há verð, þá þakka ég fyrir það,“ sagði Þórarinn að lokum í ræðu sinni.