Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þriðjungur íbúðarhúsa í Kulusuk yfirgefinn

05.07.2016 - 19:48
Þriðjungur íbúðarhúsa í Kulusuk á Austurströnd Grænlands stendur tómur eftir áralanga fólksfækkun. Íbúar flytjast burt í leit að atvinnu og betri lífsgæðum og skilja innbúið jafnvel eftir í von um að geta snúið til baka.

Á austurströnd Grænlands búa um þrjú þúsund manns. Um 2000 manns í Tasiilaq á Amasalik eyju og um þúsund manns í fimm byggðum í nágrenninu, Isortoq, Tinitiqilaq, Kummiut, Semrliaq og Kulusuk. Á undanförnum árum hefur íbúum byggðanna fækkað til muna og eftir standa tóm hús til minningar um það sem áður var. Í Kulusuk, einni af byggðunum fimm, eru um 180 hús en rúmlega fimmtíu þeirra hafa verið yfirgefin.  

Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir er mannfræðingur og hefur búið undanfarin fjögur sumur í Kulusuk: „Kulusuk er hraðast minnkandi bær á Grænlandi, hérna er fólk að flytja í burtu, vikulega yfir sumartímann.“

„Flestir sem búa hérna núna eru veiðimenn. En það er ekki mikla vinnu að fá,“ segir Justus Paulsen sem er í byggðastjórn Kulusuk.

„Fólk er að fara mikið til Tasiilaq í leit að vinnu. Og ætlar kannski ekki að vera mikið lengi. Svo það skilur húsin sín eftir með öllu innbúinu í. Og ætla að koma aftur, en svo kemur það ekkert endilega aftur,“ segir Jóhanna.

Austur-Grænland varð dönsk nýlenda árið 1894. Fram að því voru Austur-Grænlendingar veiðimannaþjóð sem elti fæðuna og hafði ekki fasta búsetu árið um kring. 

„Ég var eitthvað aðeins með hugmyndir um að kannski tengist þetta þessari gömlu hefð að vera alltaf að flytja og tengjast ekki endilega húsinu eða „físiska“ innbúinu sem slíku.“

„Fólk heldur að það geti kannski flutt til baka, ég veit það ekki, kannski,“ segir Justus Paulsen að lokum.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður