Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þriðjungur geislafræðinga hefur sagt upp

15.06.2015 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriðjungur allra geislafræðinga Landspítalans hefur sagt upp störfum. Stór hluti þeirra sagði upp störfum þegar í síðasta mánuði.

 

Katrín Sigurðardóttir, formaður félags geislafræðinga, segir að á meðan á verkfalli stóð hafi um tveir þriðju hlutar geislafræðinga verið við störf hverju sinni. 

Nú sé búið að setja lög, þá séu hins vegar sumarfrí að hefjast, því verði áfram um þriðjungur geislafræðinga í fríi hverju sinni fram að hausti, og með haustinu hætta þeir sem hafa sagt upp. Katrín segir að af þessum ástæðum sjái hún ekki að ástandið sé neitt að breytast þrátt fyrir að lög hafi verið sett, nema fólki verði meinað að fara í sumarfrí eða það keyrt áfram á eftirvinnu. 

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir að Landspítalinn megi í raun alls ekki við því að missa fleira fólk. Hún segir að í ljósi alls þessa sem og þess að nú fari í hönd tími sumarleyfa, sé ljóst að spítalinn verði lengi að vinna upp þann verkefnahala sem safnaðist upp í verkfallinu.

„Þetta kemur til með að taka mánuði að vinna upp það sem hefur safnast upp og við þurfum bara samstillt átak allra okkar starfsmanna, með góðum stuðningi frá stjórnvöldum og almenningi, til þess að ná því markmiði,“ segir Sigríður.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV