Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þriðjungur bóksölunnar gufaður upp

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þriðjungur bóksölunnar gufaður upp

17.08.2017 - 06:44

Höfundar

Tekjur af bóksölu hafa lækkað um rúmlega 30 prósent frá hruni og seldum eintökum bóka hefur fækkað um 44 prósent frá árinu 2010, samkvæmt tölum sem Félag íslenskra bókaútgefenda hefur unnið upp úr tölum Hagstofunnar.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir í viðtali við blaðið að þessu verði ekki lýst öðruvísi en sem hruni. Hann segir að ellefu prósenta samdráttur hafi verið í bóksölu á síðasta ári og rekur það ekki síst til þess að virðisaukaskattur hækkaði úr sjö prósentum í ellefu. Hann segir að stjórnvöld hafi brugðist við þegar harðnað hafi á dalnum í öðrum atvinnugreinum, svo sem fataverslun, og biður um að bókaútgáfunni verði sýndur sami skilningur.

Fram kemur í fréttinni að ársvelta í bókaútgáfu hafi farið úr 3,57 milljörðum króna árið 2008 í 2,46 milljarða í fyrra. Fyrstu fjóra mánuði ársins hafi veltan dregist saman um tæp átta prósent.