Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þriðji stærsti skjálftinn frá goslokum

25.06.2016 - 14:50
Eldstöðin við Holuhraun. Mynd: Ómar Ragnarsson
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Jarðskjálfti að stærð 4,0 varð á norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar klukkan 13:17 í dag. Þetta er þriðji stærsti skjálfti frá goslokum í Holuhrauni í febrúar í fyrra. Um tuttugu eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið . Þeir stærstu mældust 3,2 klukkan 13:18 og 3,9 klukkan 13:45.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Alls hafa mælst 55 jarðskjálftar stærri en 3 og þrír skjálftar stærri en 4 síðan þá. Hrinan í dag stóð yfir milli kl. 13:15 og 14:00 og hefur virknin minnkað talsvert síðan þá.

Hulda Rós Helgadóttir hjá Veðurstofunni segir að skjálftarnir séu ekki merki um að gos sé að hefjast á ný. „Þetta er svipað og hefur verið síðustu mánuði. Frá því í september hafa skjálftar yfir 3,0 verið algengir í öskjunni. Það eru engin merki um breytingar á botni öskjunnar né útstreymi gass úr sigkötlum. Þessir skjálftar eru ekki merki um beinar kvikuhreyfingar. Þessir skjálftar eru ekki kvikuskjálftar,“ segir Hulda Rós. 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV