Þriðji Kanadamaðurinn handtekinn í Kína

19.12.2018 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirvöld í Kína hafa handtekið þriðja Kanadamanninn á stuttum tíma. Kanadíska blaðið National Post greindi frá þessu í dag og kvaðst hafa fengið þessar upplýsingar frá kanadíska utanríkisráðuneytinu. 

Spenna hefur verið í samskiptum Kína og Kanada síðan kanadíska lögreglan handtók Meng Wanzhou, fjármálastjóra rafeindafyrirtækisins Huawei, í Vancouver 1. desember.

Henni var gefið að sök að hafa brotið gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Íran. Meng, sem er dóttir stofnanda Huawei, neitar sök. Hún var látin laus gegn tryggingu um miðja síðustu viku.

Nokkru áður var Michael Kovrig, fyrrverandi starfsmaður í kanadísku utanríkisþjónustunni, handtekinn í Peking og stuttu síðar kaupsýslumaðurinn Michael Spavor. Að sögn kínverskra yfirvalda sæta þeir rannsókn vegna gruns um að hafa ógnað öryggi kínverska ríkisins.

Ekki er enn ljóst hver þriðji Kanadamaðurinn er, en National Post kvaðst hafa það eftir heimildarmanni sem rætt hefði við fjölskyldu viðkomandi að hann væri hvorki kaupsýslumaður né stjórnarerindreki.

Kanadíska stjórnin hefur nokkrum sinnum haldið því fram að engin tengsl væri milli handtöku Mengs og þeirra Kovrigs og Spavors, en vestrænir diplómatar segja Kínverja vera að hefna sín á Kanadamönnum. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi