Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þriðja kryddið

Mynd: Kormákur Máni Hafsteinsson / Prins Póló

Þriðja kryddið

24.04.2018 - 10:47

Höfundar

Þriðja kryddið fjallar um óútkljáða gremjuvalda og ferðalög út fyrir efnisheiminn, karla og konur í kreppu, öldrun, sólarlönd og almenna bugun. Fyrir utan hið augljósa bragðaukandi bætiefni þá er Þriðja kryddið lífstíll, samfélagsgerð og einkenni á mannlegri hegðun. Þriðja kryddið er þriðja plata Prins Póló og er platan plata vikunnar á Rás 2.

Þriðja kryddið gerist þegar við veljum einföldustu og stystu leiðina að settu marki. Við viljum ekki flókið líf. Við þráum að njóta lífsins án mikillar fyrirhafnar. Lifa þægilegu lífi en ekki óþægilegu. Og alls engu meinlætalífi. Vinna með gamlar hugmyndir frekar en að hugsa upp nýjar. Þriðja kryddið er uppskriftin að þægilegu lífi. 

Þriðja kryddið fjallar um glansmyndir á sama tíma og það er ekki að reyna að vera neitt annað en það er. Því Þriðja kryddið er heiðarlegt. Og þó svo að Þriðja kryddið sé sjoppulegt þá veitir sjoppan ákveðna þjónustu sem aðrir veita ekki. Við förum í sjoppuna í myrkrinu þegar allt annað er lokað. 

Í tilefni af útgáfunni stendur hirðin fyrir allskyns húllumhæi á næstu vikum. Fimmtudaginn 26. apríl mun Prinsinn opna sýningu í Gallerí Port Laugavegi 23b. Sýningin samanstendur af málverkum og ljósmyndum upp úr þema plötunnar. Sýningin stendur út þriðjudaginn 1. maí. Útgáfutónleikar verða svo haldnir í Iðnó föstudaginn 27. apríl klukkan 21.30. Hinn ómótstæðilegi Árni+1 úr FM Belfast verður til halds og trausts á tónleikunum. Leikin verða gömul lög í bland við ný og má búast við nístandi angurværð í bland við hoppandi stuð. 

Í kjölfarið á útgáfutónleikunum verður svo gítarnum og góða skapinu pakkað í skottið og lagt af stað í hringferð um landið. Heimsóttir verða nokkrir vel valdir staðir, tekið í spaða og slegið á strengi. Stefnan er sett á 13 tónleika sem hér segir:

Föstudagur 27. apríl: Iðnó
Laugardagur 28. apríl: Frystiklefinn Rifi
Sunnudagur 29. apríl: Drangsnes, Malarkaffi
Mánudagur 30. apríl: Hvammstangi, Sjávarborg
Miðvikudagur 1. maí: Hvanneyri, Pub
Fimmtudagur 3. maí: Akureyri, Græni Hatturinn
Föstudagur 4. maí: Dalvík, Gísli Eiríkur Helgi
Laugardagur 5. maí: Húsavík, Hvalbakur
Sunnudagur 6. maí: Seyðisfjörður, Herðubreið
Fimmtudagur: 17. maí: Keflavík, Paddy’s
Föstudagur 18. maí: Hafnarfjörður, Bæjarbíó
Laugardagur 19. maí: Hvolsvöllur, Midgard
Sunnudagur 20. maí: Berufjörður, Havarí

Nánari upplýsingar um tónleikaferðina eru á fésbók Prins Póló og hægt er að nálgast miða á tix.is