Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þriðja konan komst inn í hofið

04.01.2019 - 16:35
Mynd með færslu
Bókstafstrúarfólk, jafnt konur sem karlar, hafa mótmælt því að konur á aldrinum 10-50 ára fari inn í hofið. Á myndinni reynir lögregla að stöðva mótmælendur. Mynd:
Konu tókst í gærkvöld að komast inn í Sabarimala hof hindúa í Kerala á Indlandi. Konum á aldrinum 10 til 50 ára hefur verið bannað að fara inn í hofið. Hæstiréttur landsins afnam bannið í september.

Tveimur konum tókst að komast að líkneski hofsins í fyrradag í lögreglufylgd. Tvær aðrar höfðu reynt það í október, en urðu frá að hverfa þrátt fyrir yfir 100 manna fylgdarlið lögreglu. Mótmæli hafa verið á svæðinu í vikunni og greinir AFP fréttastofan frá því að á þriðja hundruð hafi særst og einn látið lífið. Mótmælunum er að mestu lokið.

Fjöldi bókstafstrúarfólks hefur hindrað ferðir kvenna inn í hofið. Bókstafstrúaðir hindúar telja að konur á blæðingum séu óhreinar og hafa því meinað þeim að taka þátt í trúarathöfnum. Yfirleitt er miðað við aldurinn 10 til 50 ára. Í flestum hofum er konum þó leyfður aðgangur séu þær ekki á blæðingum. Sabarimala hofið er eitt fárra á Indlandi þar sem konum á aldrinum 10 til 50 ára er enn meinuð aðganga. 

Konan sem komst inn í hofið í gærkvöld er 47 ára, frá Sri Lanka og búsett í Frakklandi. AFP fréttastofan hefur eftir Balram Kumar Upadhyay, lögreglumanni, að lögreglan hafi vitað að konan ætlaði inn í hofið og því fylgst vel með.  

Indverskar konur tóku höndum saman á miðvikudag og mynduðu 620 kílómetra langa keðju með það að markmiði að sýna samstöðu og berjast fyrir jafnrétti kynjanna og mótmæla framferði þeirra sem hafa hindrað ferðir kvenna í hofið.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir