Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þriðja inngrip Seðlabankans í haust

14.11.2018 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn í dag eftir mikla lækkun krónunnar undanfarið. Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Þetta er í þriðja skiptið í haust sem bankinn grípur inn í markaðinn. Fyrsta inngripið var 11. september og annað 23. október. Í bæði skiptin keypti bankinn 1,2 milljarða íslenskra króna fyrir 9 milljónir evra.

Fyrir inngripið í september hafði bankinn ekki gripið til slíks úrræðis í meira en ár. Þá vísaði bankinn til yfirlýsingar sem gefin var út í maí 2017 um að bankinn væri hættur reglubundnum viðskiptum með gjaldeyri en myndi eftir sem áður beita inngripum á gjaldeyrismarkaði eftir þörfum.

Starfsreglur bankans eru þannig að hann veitir ekki upplýsingar um umfang gjaldeyrisviðskiptanna fyrr en að tveimur dögum liðnum.