Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þrengt enn frekar að fjölmiðlum í Rússlandi

04.12.2017 - 20:38
Mynd með færslu
 Mynd: ??????????? ?????
Fjarskiptaeftirlit Rússlands undirbýr drög að regluverki sem gerir rússneskum stjórnvöldum kleift að banna dreifingu erlendra dagblaða og tímarita í landinu. 

Einungis viku eftir að Pútín, forseti Rússlands, undirritaði lög sem skilgreinir fjölmiðla sem njóta stuðnings erlendis frá sem útlenda útsendara, eru stjórnvöld farin að leggja drög að því að þrengja enn frekar að erlendum fjölmiðlum.

Rússneska dagblaðið Kommersant greinir frá því að Roskomnadzor, fjarskiptaeftirlit Rússlands, sé að móta reglur um hvað erlend dagblöð og tímarit megi og megi ekki. Á meðal þess sem ekki verður leyfilegt samkvæmt heimildum Kommersant verður að upplýsa um ríkisleyndarmál, styðja við hryðjuverk, nota ósæmilegt orðfæri, birta klámfengið efni eða birta uppskriftir að sprengjum eða eiturlyfjum. Þá verður blöðum óheimilt að brjóta gegn fjölmiðlalögum og lögum um öfgastarfsemi. 

Brjóti útgefendur gegn þessu banni verði dreifing viðkomandi blaðs bönnuð í Rússlandi. Erlend dagblöð eru ekki seld víða í Rússlandi og hverfandi lítið utan Moskvu og Sankti Pétursborg. 

Talsmaður mannréttindaráðs rússnesku ríkisstjórnarinnar segir í samtali við Kommersant að þessar nýju reglur gætu átt við The New York Times og þýsk og frönsk dagblöð.

Rússneska fjarskiptaeftirlitið hefur brugðist hart við yfirlýsingum frá ráðamönnum Google um að fyrirtækið leiti leiða til að draga úr vægi frétta sem birtast í fjölmiðlum í eigu rússneska ríkisins í leitarvélum þess, vegna gruns um að slíkar fréttir séu oft og tíðum meira í ætt við áróður en fréttir, og eins vegna gruns um að rússnesk stjórnvöld noti slíkar fréttir til að hafa áhrif á innanríkismál annarra ríkja, til að mynda bandarísku forsetakosningarnar og atkvæðagreiðslu um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Samfélagsmiðillinn Twitter hefur ákveðið að hætta að birta auglýsingar rússnesku ríkisfjölmiðlanna Russia Today og Sputnik. Fjarskiptaeftirlit Rússlands segist hafa miðla til að bregðast við komi í ljós að dregið verði úr vægi frétta úr rússneskum ríkismiðlum á leitarvélum Google.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV