Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þrengsli, for og bleyta á nautgripabúum

26.09.2015 - 12:40
Nautgripir.
Úr myndasafni. Mynd: RÚV
Dæmi eru um að nautgripir á íslenskum búum séu vanfóðraðir því þeir þurfa að keppa við stærri nautgripi um æti. Þetta, ásamt þrengslum, for, bleytu og óhreinindum, er meðal alvarlegra athugasemda sem Matvælastofnun gerði við velferð nautgripa á nærri 30 bæjum í fyrra.

Matvælastofnun gerði alvarlegar athugasemdir við dýravelferð á 47 bæjum í matvælaframleiðslu í fyrra. Flestar voru við aðbúnað, fóðrun og heilbrigði nautgripa, á 29 bæjum. Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að þar af hafi stærstur hluti verið vegna kálfa í uppeldi og ungra nauta. Oftast hafi verið gerðar athugasemdir við þrengsli, bleytu, for, óhrein dýr og þess háttar.

Þóra segir að húsin séu ekki endilega of lítil og léleg, heldur séu þau of þétt setin miðað við aðstæður. „Og stundum er það að dýrin séu ekki flokkuð nógu vel saman, eða réttara sagt í sundur, að lítil dýr séu höfð með stórum dýrum, og það getur skapast þarna samkeppni, og þá eru það oft minni dýrin sem verða að lúta í lægra haldi. Það getur verið nóg fóður, en þau hreinlega komast ekki að. Þannig að þær skepnur lenda í vanfóðrun,“ segir Þóra.

Með nýjum lögum um velferð dýra, sem tóku gildi í ársbyrjun 2014, fékk Matvælastofnun auknar heimildir en áður til að fylgja málum eftir, ef ekki er farið að tilmælum stofnunarinnar. Til dæmis má beita sektum áður en gengið er svo langt að taka dýrin af eigendunum. Þóra segir að Matvælastofnun sé hins vegar ekki enn byrjuð að beita þessum nýju úrræðum. Mikil vinna sé nú lögð í að koma þeim í notkun. Hún segir að stofnunin geti farið að beita þeim fljótlega.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV