„Eitt hlutverk okkar er að auka útbreiðslu íslenskra bókmennta á heimsvísu,“ segir Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Það gerum við til dæmis með þátttöku í bókasýningum erlendis. Þar þurfum við auðvitað svolítið að takmarka okkur en reynum að hafa það mjög markvisst. Í byrjun árs gefum við út kynningarbækling sem gefur yfirlit yfir nýliðið bókmenntaár með völdum titlum sem gefa góða mynd af því sem hér er í gangi. Þetta höfum við síðan tilbúið í mars fyrir bókamessuna í London. Auk þess gefum við líka út bækling sem snýr að styrkjamöguleikum erlendra útgefenda því að allir þeir sem hafa áhuga á að gefa íslenskar bækur út erlendis geta snúið sér til okkar.“
Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi, kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka veg þeirra á ýmsan hátt. Miðstöðin veitir styrki úr sjóðum meðal annars til þýðinga, úr ferðasjóðum og til útgáfu. Auk þess tekur miðstöðin fyrir ýmis sérverkefni, til dæmis kannanir á lestrarvenjum Íslendinga.
Þýðendur fjársjóður
Hrefna segir að þýðingar séu lykilatriði í útflutningnum sem aukist hefur til muna undanfarin ár. „Þar er fjársjóðurinn, í starfi góðra þýðenda“ segir Hrefna. „Þetta hefur tekið stórt stökk að undanförnu. Það hefur verið þreföldun í þýðingum á íslenskum bókmenntum bara á síðustu tíu árum.“