Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Þráinn vill endurskoða lögin

10.07.2012 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Þráinn Bertelsson, varaformaður Allsherjarnefndar Alþingis, hefur óskað eftir því við formann nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, að lög um meiðyrði verði endurskoðuð þegar þing kemur aftur saman í haust. Hann segir ómögulegt að íslenska ríkið sé að fá á sig skaðabótadóma.

Þráinn greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Tilefnið er að blaðamennirnir Erla Hlynsdóttir og Björk Eiðsdóttir unnu í dag mál sín gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og var ríkissjóði gert að greiða þeim skaðabætur. Blaðamennirnir höfðu skrifað greinar um nektardansstaði, Björk um Goldfinger í Vikuna og Erla um Strawberries í DV, þar sem þær höfðu orðrétt eftir viðmælendum sínum ummæli um að refsiverð háttsemi ætti sér stað inni á stöðunum.

Þær voru gerðar ábyrgar fyrir þessum ummælum þegar eigendur staðanna kærðu og dæmdar fyrir meiðyrði í Hæstarétti Íslands. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er sú að þessir dómar hafi brotið gegn tíundu grein mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Íslenska ríkið þarf að greiða Björk tæpar sex milljónir króna og Erlu um þrjár og hálfa milljón í bætur.

Þráinn segir að formaður nefndarinnar og aðrir nefndarmenn hljóti að vera fúsir til að skoða málið enda sé dómur Mannréttindadómstólsins íslenska ríkinu til skammar.