Þotuflugmaður endaði hangandi á háspennulínu

20.09.2019 - 02:57
Erlent · Belgía · Frakkland · Evrópa
epa07853309 (FILE) - A F-16 jet of the Belgian Air Force, after taking off at Gando Air Base in Gran Canaria, Canary Islands, Spain, 12 April 2013 (reissued 19 September 2019). According to reports, a Belgian F-16 fighter jet has crashed in Western France.  EPA-EFE/ELVIRA URQUIJO A.
Belgísk F-16 orrustoþota, sömu gerðar og sú sem hrapaði á Bretagne-skaga Mynd: EPA-EFE - EFE
Tveir flugmenn F-16 orrustuþotu belgíska flughersins komust naumlega lífs af þegar þotan hrapaði til jarðar á Bretagne-skaga í Frakklandi í dag. Samkvæmt frönskum fjölmiðlum tókst þeim að skjóta sér úr vélinni áður en hún skall á jörðinni en ekki tókst betur til en svo að flugstjórinn endaði hangandi í fallhlíf sinni á háspennulínu með 250.000 volta spennu. Slökkvilið náði honum niður á jörðina áður en langt um leið, lítt meiddum.

Aðstoðarflugmaðurinn komst klakklaust til jarðar og hlaut aðeins minniháttar áverka.

Ekki er vitað hvað olli því að vélin hrapaði en rannsókn er hafin á tildrögum slyssins. Flugmennirnir eru báðir þaulreyndir og í belgískum fjölmiðlum er haft eftir ónefndum heimildarmönnum að líkast til hafi einhver bilun orðið í tæknibúnaði. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi