Þótti minna á ungan Stalín í Norður-Kóreu

Mynd: Kastljós / RÚV

Þótti minna á ungan Stalín í Norður-Kóreu

17.07.2015 - 15:08

Höfundar

Félagarnir Davíð Karl Wiium og Davíð Vilmundarson „kýldu á það“ og ferðuðust til Pyongyang í Norður-Kóreu fyrir tæpu ári. Davíð Karl má vera feginn að draga enn andann eftir að hafa vanhelgað fæðingarstað Kim Il-Sung, fyrsta þjóðarleiðtoga landsins — alveg óvart.

Félagarnir lýsa því í þættinum Ferðalag, sem verður á dagskrá Rásar 1 á morgun, hvernig þeir voru teymdir um risastórt safn fyrir utan Pyongyang, sem grafið er inn í fjallshlíð og hefur meðal annars að geyma gjafir frá erlendum stjörnum og þjóðarleiðtogum. „Þetta safn er eins og úr einhverri James Bond mynd,“ segir Davíð Vilmundarson.

Leiðsögukonan fór ekki leynt með hrifningu sína af Davíð Karli, sem fékk alltaf að vera fremstur í hópnum og var spurður álits um flest sem fyrir augu bar í safninu (þar á meðal haglabyssur frá Vladimir Pútín, forseta Rússlands).

Þetta vakti forvitni ferðafélaga hans. „Hún var voða mikið utan í honum ... svo ég spyr hana út í þetta,“ og ástæðan fyrir sérmeðferðinni kemur kannski á óvart: „Þá fannst henni hann svo líkur ungum Jósef Stalín.“

Jósef Stalín, mynd tekin 1902.

 

Vanhelgaði óvart fæðingarstað Kim Il-Sung

Félagarnir segjast báðir hafa mikinn áhuga á Norður-Kóreu og málefnum tengdum landinu og ákváðu með skömmum fyrirvara að láta verða af ferðalaginu þangað. „Þetta var rosalega mikil óvissa,“ segir Davíð Karl. „Hvern ætlarðu að spyrja á Íslandi hvernig þetta virkar? Þú veist eiginlega ekkert hvað þú ert að fara útí.“

Og það er vísast að fara varlega og forðast hvatvísi þegar ferðast er um landið, eins og Davíð Karl komst að meðan þeir voru í kynningarferð um um fæðingarstað Kim Il-Sung, fyrsta leiðtoga Norður-Kóreu. Þar fá ferðamenn þann heiður að drekka úr brunni fjölskyldunnar, þar sem þjóðarleiðtoginn á sjálfur að hafa sótt sér vatn er hann sleit barnsskónum. 

Davíð Karl lýsir því í viðtalinu hvernig hann hafi fengið sér sopa, en ekki klárað vatnið úr ausunni, og skvett afgangnum aftur í brunninn. Hann áttaði sig ekki á alvöru málsins fyrr en þögn sló á hópinn og ljóst að hann hafði gert eitthvað af sér; hann hafði óafvitandi vanhelgað fæðingarstað Kim Il-Sung með því að skila vatninu aftur í brunninn.

 „Ég sofnaði eiginlega ekki eftir þetta. Þetta var hræðilegt. Ég tók einn sopa og ætlaði svo að skila því. Ég er allaveganna hérna í dag,“ segir Davíð Karl feginn. „Það var alls ekki meiningin að vanhelga eða vanvirða þá og þeirra kúltur ... þetta var bara algjört hugsunarleysi.“

Davíð Karl Wiium og Davíð Vilmundarsson segja frá ferðalagi sínu til Norður-Kóreu í útvarpsþættinum Ferðalag, sem verður á dagskrá Rásar 1 laugardag kl. 14.00.