Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þótti mikilvægt að skrifa um snjóflóðið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í dag er 21 ár frá því að snjóflóð féll á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns létust. Sóley Eiríksdóttir var ein fjögurra sem bjargað var, þá ellefu ára. Hún er sagnfræðingur og hefur skrifað bók um náttúruhamfarirnar, Nóttin sem öllu breytti.

Rætt var við Sóleyju í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir að sér hafi þótt mikilvægt að það yrði hún sem segði söguna. 

„Ég spurði mig oft hvað ég væri að hugsa, að gera fólki þetta, að reyna að draga þetta út,“ rifjaði hún upp. „Það stendur upp úr að ég er ótrúlega ánægð að hafa gert það. Af því að þetta eru svo sterkar lýsingar og þetta fylgir okkur öllum, þó þetta sé sorglegt.“

Í bókinni sé einnig gleði að finna. „Ég sé helling af gleði í bókinni líka, að þetta sé ekki bara erfitt. Það er mikil  von og samstaða. Allt það góða sem gerðist. Allar tilviljanirnar, allir sem björguðust og það er margt gott þarna líka.“
 
Sóley segir að flestir hafi tekið vel í að rifja upp atburðinn. Nokkrir hafi verið tvístígandi þegar hún talaði við þá fyrst en þeir hafi síðar talið mikilvægt að saga þeirra yrði sögð.

„Af því að því fannst svo mikilvægt að þetta væri til, sérstaklega fyrir afkomendur og kynslóðir framtíðarinnar að þetta sé til skráð. Af því að þetta er eitthvað sem fólk er ekki endilega tilbúið til að tala mikið um.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV