Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Þorvaldur Þorsteinsson látinn

25.02.2013 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður og rithöfundur, lést á heimili sínu í Antwerpen í Belgíu á laugardaginn. Þorvaldur var fæddur á Akureyri 7. nóvember 1960.

Þorvaldur nam íslensku við Háskóla Íslands og myndlist hér heima og í Amsterdam. Hann starfaði jöfnum höndum sem myndlistarmaður, rithöfundur og kennari. Hann hélt fjölda myndlistarsýninga á Íslandi og erlendis og þegar hann lést var í undirbúningi sýning á nýjum verkum hans í Listasafni Íslands. Meðal bókmenntaverka sem eftir hann liggja eru sögurnar um Blíðfinn og Skilboðaskjóðan, en leikrit byggt á þeirri sögu var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1986. Meðal annarra verka hans má nefna Vasaleikhúsið sem hann sá um sem höfundur og flytjandi í Ríkisútvarpinu, og leikritið And Björk of course sem hann hlaut Grímuna fyrir. Það verk hefur verið sýnt víða í Evrópu. Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna árin 2004 til 2006. Bók um Þorvald og listferil hans var í undirbúningi þegar hann lést. Þorvaldur lætur eftir sig eiginkonu, tvö fósturbörn og og tvö barnabörn.