Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þorsteinn styður Sigmund Davíð

25.09.2016 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson til áframhaldandi formennsku og telur að hann geti náð til kjósenda í komandi Alþingiskosningum.

„Þetta er nú væntanlega í fyrsta sinn, alla vega sem ég man eftir, sem það kemur fram framboð á móti sitjandi formanni. Við erum ekki vanir því í Framsóknarflokknum. Ég óttast nokkuð að fylgi þessara tveggja heiðursmanna skiptist nokkuð jafnt. Þannig að ég óttast svolítið að menn séu að rífa flokkinn á hol þremur vikum fyrir kosningar. Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt, en það kemur bara í ljós þegar að á líður,“ segir Þorsteinn.

„Ég treysti Sigmundi Davíð og hans hugsjónum og hans framtíðarsýn mjög vel til þess að við náum árangri. Við vorum með hvað, ellefu prósent í skoðanakönnun sem var tekin núna bara í kjölfar miðstjórnarfundarins á Akureyri. Nú veit maður ekki hvaða áhrif þessir nýjustu atburðir hafa, en já ég treysti Sigmundi Davíð mjög vel til þess að leiða flokkinn áfram,“ segir hann.

En þú telur að Sigmundur geti náð til kjósenda í aðdraganda kosninganna?

„Ég tel það já. Og ég held að það sé nú líka lykillinn að því að menn nái árangri að menn geti ýtt þessum bræðravígum til hliðar og sameinast að baki þeim sem verður kosinn formaður á næsta flokksþingi,“ segir Þorsteinn.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV