Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þorsteinn Már: Tilgangurinn að sakfella menn

22.01.2018 - 11:04
Frá aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis.
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis, var harðorður í garð sérstaks saksóknara þegar hann gaf skýrslu í stóra markaðsmisnotkunarmálinu gegn Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra bankans, og fjórum öðrum starfsmönnum. Hann sagði saksóknara keyra á „sjóvinu“, að tilgangurinn væri að sakfella menn og sagði að embættið hefði unnið á óheiðarlegan hátt, til að mynda með hlerunum, á meðan þeir sem hefðu unnið innan Glitnis á sínum tíma hefðu unnið á heiðarlegan hátt.

Fyrri hluti skýrslutökunnar fór í fyrsta lið ákærunnar sem snýr að deild eigin viðskipta og viðskipti með hlutabréf í bankanum. Þorsteinn sagðist ekki hafa sama fílsminni og starfsmenn sérstaks saksóknara og myndi ekki eftir því að hafa verið í samskiptum við starfsmenn deildar eigin viðskipta. 

Hann sagðist ekki muna eftir því að gerð hafi verið athugasemd við það hvernig viðskiptum bankans með eigin bréf hefði verið háttað.  „Ég held að það hafi verið almennt á þessum hlutabréfamarkaði, sjálfur var ég með fyrirtæki á hlutabréfamarkaði, ég held að það hafi verið nánast verið með öll fyrirtæki að það var verið að vakta hlutabréf þess á markaði, hvernig menn reyna svo að endurskrifa söguna í dag.“

Þorsteinn sagðist reikna með allt hefði verið eðlilegum hætti á stjórnarfundum bankans en hann væri þó að svara fyrir eitthvað sem gerðist eða var sagt á fundum fyrir tíu árum.  „Og þá segir vitnið það bara,“ skaut Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, að.

Þorsteinn sagði að samskipti hans við Lárus Welding hefðu verið góð og innan eðlilegra marka. Hann kvaðst ekki muna eftir aðkomu sinni að viðskiptum 14 starfsmanna Glitnis og lánum til þeirra vegna hlutabréfakaupa. Hann hefði lýst því yfir á aðalfundi bankans að hann teldi rétt að æðstu stjórnendur bankans ættu hlutabréf í bankanum. 

Hann sagðist hafa skrifað undir lánin með Lárusi Welding en hann myndi ekki nákvæmlega hvenær það hefði verið gert. „Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það sem gerðist fyrir tíu árum síðan.“ Þorsteinn sagði að lánin hefðu verið kynnt þannig fyrir sér að það ættu að vera tryggingar fyrir lánin. „Ég ætla ekki fullyrða hvernig lánin voru kynnt fyrir mér fyrir tíu árum. En þarna var verið að tryggja sér gott fólk fyrir framtíð bankans á umbrotatímum.“

Þorsteinn lýsti samskiptum sínum við Lárus Welding sem góðum og að hann hefði treyst honum. „Það var alveg ljóst að við ætluðum að lækka rekstrarkostnað bankans og unnið var að sölu eigna.“ Laun Lárusar hefðu verið lækkuð um helming og bónusar og kaupréttir endurskoðaðir. Þorsteinn sagðist hafa borið traust til Lárusar og þau mál sem hefðu komið upp eftir 2008 hefðu ekki breytt þeirri skoðun hans. Hann sagði það hafa verið bankanum mikilvægt að tryggja sér gott fólk til framtíðar og þess hefði þessum mönnum verið að eignast bréf í bankanum. „Til að við hefðum gott fólk til að fara í gegnum þær breytingar sem voru að fara í gegnum.“

Þorsteinn sagði það hafa legið ljóst fyrir að þeir starfsmenn sem gerðust hluthafar í bankanum hafi gert það trausti þess að hægt væri að reka bankann á ásættanlegt hátt og að hlutabréf í bankanum myndu hækka. „Þarna var verið að búia til annan strúktur og svo geta menn talað um það hvort slíkt sé rétt eða ekki.“

Og þegar þarna var komið við sögu sagðist Þorsteinn treysta Lárusi Welding og hóf upp mikinn reiðilestur yfir vinnubrögðum saksóknara, hann hefði haft stöðu sakbornings árum saman sem væri brot á öllum sínum réttindum og það væri dæmi um vinnubrögð saksóknara að búa til nýjar skoðanir og túlkanir.

Arngrímur Ísberg ákvað að stöðva Þorstein og minnti hann á að hlutverk hans sem vitnis væri að svara spurningum en ekki vera að fjalla um eitt eða neitt. „En ég geri það nú samt,“ svaraði Þorsteinn. „En þú átt ekki að gera það,“ hélt Arngrímur áfram.

Þorsteinn sagði saksóknara vera að keyra á „sjóvinu“ með ákærum um markaðsmisnotkun og umboðssvikum. „Það er alveg ljóst hver er tilgangurinn – menn eru í keppni um að sakfella menn, það er ekkert annað sem þetta snýst um af hálfu saksóknara.“

Hann ítrekaði það sem hann hafði áður sagt, að lánin til hlutabréfakaupa hefðu verið til að tryggja sér áframhaldandi störf góðra starfsmanna og það skyldi enginn segja honum að Lárus hefði fundið upp á þessu sjálfur. „Hann var ekki í neinum einleik eða feluleik í bankanum. Hann var ekki með þetta [lánin] í felum.“ Þorsteinn sagði það jafnframt sýna fáranleika málsins að hann væri staddur hérna, tíu árum seinna.

Hann sagðist vera ósammála þeirri skoðun saksóknara um að lán fyrir hlutabréfakaupunum hefðu ekki haft neinn viðskiptalegan tilgang, það hefði viðskiptalegan tilgang að halda í gott fólk.  Og hóf aftur upp mikinn reiðilestur um vinnubrögð saksóknara, að hann hefði unnið á óheiðarlegan hátt, til að mynda varðandi hleranir á meðan starfsfólk Glitnis á þessum tíma hefði unnið á heiðarlegan hátt.  

Hann sagðist aldrei hafa upplifað það að Lárus hefði farið á bak við sig og hann hefði aldrei upplifað óheiðarleika frá þessum mönnum. „Mér hefur alltaf liðið vel með Lárusi Welding og hef alltaf borið fullt traust til hans.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV