Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þorsteinn Bergmann úr miðbænum eftir 47 ár

11.04.2017 - 19:46
Mynd: RUV / RUV
Verslun Þorsteins Bergmann flytur af Skólavörðustíg um mánaðamótin en þar hefur fengist allt milli himins og jarðar síðan 1970. Helena Bergmann, eigandi verslunarinnar, segir að Íslendingar séu hættir að kaupa inn í miðborginni.

Hillurnar í verslun Þorsteins Bergmann við Skólavörðustíg hafa verið troðfullar af vörum síðustu áratugi en nú er vöruúrvalið farið að þynnast. Ástæðan er sú að verslunin flytur um mánaðamótin. Þar hafa fengist fjölbreytt búsáhöld en fatalitur lagði grunninn að rekstrinum. „1947 þá byrjaði pabbi að flytja inn þennan fatalit og svo bara fór hann að flytja inn alls kyns búsáhöld og svoleiðis dótarí,“ segir Helena.  

Á níunda áratugnum voru reknar fjórar verslanir undir nafni Þorsteins, í Hraunbæ, á Laufásvegi, Laugavegi og við Skólavörðustíg. Síðan hefur ýmislegt breyst. Helena seldi húsnæðið fyrir skemmstu en vonast til að þar opni ekki enn ein lundabúðin. „Miðbærinn er bara orðinn svo breyttur. Svona 2-3 ár þá hefur hann breyst alveg svakalega, það eru aðallega útlendingar sem koma, Íslendingar tala um að þeir nenni ekki niður í bæ. Bæði það er ekkert af búðum fyrir þá, erfitt að fá bílastæði og þeir hafa bara ekki eftir neinu að sækjast. Mér finnst þeir meira koma í bæinn til að skemmta sér, fara á kaffihús og kíkja í búðir, ekki endilega til að versla.“ 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV