Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þorskur varð að ufsa en reyndist vera þorskur

21.03.2019 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Mun meiri kynblöndun hefur verið milli þorsktegunda en áður var talið. Þetta sýna niðurstöður úr nýrri íslenskri rannsókn sem var birt í vísindaritinu Science Advances. Atlantshafsþorskurinn virðist hafa farið á milli hafsvæða og myndað nýjar tegundir, eins og vagleygða ufsann sem reyndist vera þorskur. Katrín Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að rannsóknin varpi ljósi á þær hættur sem þorskstofnunum eru búnar vegna loftslagsbreytinga. 

Raðgreindu erfðaefni þorsktegunda

Greinin í Science Advances heitir „Codweb: whole-genome sequencing uncovers extensive reticulations fueling adaptation among Atlantic, Arctic, and Pacific gadids“. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni, „Stofnerfðamengjafræði þorskfiska með háa frjósemi“, sem hlaut öndvegisstyrk til þriggja ára úr Rannsóknasjóði Íslands í fyrra. 

Katrín hóf vinnu við rannsóknina 2014 og vann hana ásamt  Einari Árnasyni, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Hún snýst um tengsl atlantshafsþorsksins, við systurtegundir í Kyrrahafi og Íshafi og var markmiðið að skoða hvernig náttúrulegt val myndar lífverur.  

Þau raðgreindu erfðaefni þorsktegunda eins og ískóðs (arctic cod), ísþorsks (polar cod), atlantshafsþorsks (Atlantic cod), kyrrahafsþorsks (Pacific cod) og vagleygða ufsans (Walleye pollock) og grænlandsþorsks (Greenland cod) og báru þau saman. „Niðurstöðurnar eru þær að það er heilmikil kynblöndun milli tegundanna og mun meiri en fyrr hefur verið talið og þess vegna lýsum við því þannig að skyldleiki tegundanna er meira eiginlega eins og net frekar en hefðbundið þróunartré þar sem lífverurnar koma hver af annarri því að það er svo mikil kynblöndun á milli þeirra að það er erfitt að segja á vissan hátt hver kom á undan hinum.“
 

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Kynblöndun þorsksins

Gen flytjast á milli tegunda

Sjá má hvernig blöndunin hefur átt sér stað í myndbandinu.
Svo virðist sem atlantshafsþorskurinn hafi synt yfir í Kyrrahafið fyrir þúsundum ára og þá varð til kyrrahafsþorskurinn, Pacific cod (rauða pílan í myndbandinu). Atlantshafsþorskurinn lagði aftur upp í sams konar leiðangur einhverju síðar (bláa pílan í myndbandinu) og þá hitti hann á leiðinni ískóð (arctic cod) og ísþorsk (polar cod) sem eru tegundir sem búa við Norðurpólinn. Hann kynblandaðist við þær tegundir og til varð vagleygði ufsinn, (walleye pollock) sem menn héldu að væri ufsi en er þorskur. Kyrrahafsþorskurinn ákveður svo að snúa aftur (græna pílan) og hitti þá fyrir forföður sinn og úr því varð til grænlandsþorskur.  
 
„Þannig flytjast gen á milli tegunda og úr geta orðið nýjar tegundir eða að minnsta kosti taka þær genin yfir og geta aðlagast nýju umhverfi á nýjan hátt“ Það megi þannig halda því fram að þorskurinn hafi orðið að ufsa. „Já nema þetta er ekki ufsi. Það er búið að breyta nafninu. Hann er þorskur og heitir það í dag. Þetta er þorsktegund en var alltaf talin vera ufsi.“

Billjón dollara fiskurinn 

Lengi var hann talinn vera ufsategund en þegar farið var að skoða erfðamengið reyndist hann vera þorskur. Hann hefur marga sömu hæfileika og forfaðir hans, atlantshafsþorskurinn, en hefur með kynblönduninni átt auðveldara með að aðlagast og þá færast gen frá einni tegund til annarrar. 

Þorskurinn sem varð að ufsa en reyndist vera þorskur hefur verið kallaður billjón dollara fiskurinn. Stofninn er gríðarlega stór og má líta á hann sem vistfræðilegan sigurvegara. Hann er notaður í nánast allar unnar frystivörur í Bandaríkjunum, hvort sem það eru fiskborgarar McDonalds, Fish and Chips, fiskistautar eða hvað annað. 

Katrín segir að þorskurinn sé lífvera sem hafi óskaplega aðlögunarhæfni og standi undir einu mesta veiðiálagi í heimi. Rannsóknin varpi ljósi á þær hættur sem geta verið famundan vegna loftslagsbreytinga. Með hlýnun jarðar má vera að leiðin yfir til Kyrrahafsins verði auðveldari og þorskurinn gæti dreift sér meira. 

„Það getur orðið til þess að ísinn á norðurskauti, ef hann hopar, þá verður ferðalagið á milli hafanna auðveldara og návígi fiskanna hver við annan verður meira og út getur orðið enn meiri kynblöndun á milli tegundanna.“

Bergljót Baldursdóttir
dagskrárgerðarmaður