Þorskstofninn aldrei mælst stærri

19.04.2017 - 06:17
Mynd með færslu
Togað var með botnvörpu á hartnær 600 stöðum hringinn í kringum landið. Mynd: Hafrannsóknastofnun
Þorskstofninn mælist stærri en hann hefur nokkru sinni verið síðan Hafrannsóknastofnun tók til við stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum árið 1985. Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum í febrúar og mars síðastliðnum. Meðalþyngd þorsks, eldri en sjö ára, er hærri en síðustu ár, en lægri hjá yngri árgöngum. Stofnvísitala þorsks hefur hækkað nær samfellt frá 2007 og er nú sú hæsta frá upphafi mælinga.

Þetta má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski. Útbreiðsla þorsks var líka meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum og fékkst góður afli á miðum hringinn í kringum landið. Stofnvísitölur þorsks, gullkarfa og löngu mældust háar miðað við síðustu þrjá áratugi, segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Ýsan í meðallagi, steinbíturinn slappur

Vísitala ýsu er nálægt meðallagi en vísitölur steinbíts eru lágar. Þá benda mælingarnar til þess að stofnvísitölur ufsa, skarkola, þykkvalúru, langlúru og grásleppu séu háar og fari vaxandi, á meðan stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúru eru í sögulegu lágmarki. Þá fer skötuselsstofninn minnkandi og nýliðun virðist lélegri en oft áður.

Rannsóknin, sem tvö skip Hafrannsóknastofnunar og tveir togarar tóku þátt í, leiðir einnig í ljós að útbreiðsla ýmissa fisktegunda á Íslandsmiðum hefur breyst nokkuð á þeim tíma sem þessar rannsóknir hafa farið fram. Það á til dæmis við um ýsu og skötusel, auk þess sem magn ýmissa suðlægra tegunda á borð við svartgómu og litlu brosmu hefur aukist við landið sunnanvert. Þá mælist hitastig sjávar að meðaltali hátt við hafsbotninn, líkt og verið hefur síðustu ár.

Nálgast má niðurstöður stofnmælinganna á vef Hafrannsóknastofnunar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi