Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þorpsbúar féllu í loftárás í Nígeríu

08.07.2019 - 04:34
Mynd með færslu
Herir Nígeríu, Níger, Kamerún og Tjad hafa til skamms tíma unnið saman gegn Boko Haram á svæðinu umhverfis Tjad-vatn. Eftir árásina á herstöð Tjad-hers við Bohoma í mars tilkynntu þarlend stjórnvöld að þau hygðust draga sig út úr samstarfinu og einbeita sér að því að berjast gegn Boko Haram innan eigin landamæra. Mynd:
Þrettán almennir borgarar létu lífið í loftárás nígeríska hersins í norðausturhluta landsins á þriðjudag. Árásinni var beint að herskáum íslamistum í Borno fylki eftir að þeir höfðu ráðist á herstöð í nágrenni þorpsins Gajiganna, um 50 kílómetrum frá Maiduguri, höfuðstað fylkisins. 

AFP hefur heimildir sínar um mannfall meðal almennra borgara frá þorpsbúum. Nígeríski flugherinn segist hins vegar engar fregnir hafa heyrt af því að almennir borgarar hafi látið lífið í árásunum. Þorpsbúar segja hins vegar að íbúar sem reyndu að flýja átökin á milli hersins og hryðjuverkasveitarinnar sem kennir sig við íslamskt ríki hafi lent í miðri loftárásinni. Auk þeirra 13 sem létu lífið særðust fjölmargir að sögn þorpsbúa.

Flugherinn var kallaður út undir kvöld til þess að aðstoða hermenn á herstöðinni í bardögum við vígamenn. Fjölmargir þorpsbúar voru of hræddir til að halda kyrru fyrir heima og hlupu sem fætur toguðu út úr þorpinu. Þorpsbúi telur flugmann herþoturnar hafa ruglast á flýjandi þorpsbúum og vígamönnum og látið sprengjum rigna yfir þá.

Ibikunle Daramola, talsmaður flughers Nígeríu, segist ekki hafa heyrt af þessu. Hann segir í samtali við AFP að flugherinn hafi brugðist hárrétt við þegar óskað var eftir aðstoð hans vegna árásar vígamanna á herstöðina. Heimildamaður AFP úr röðum öryggissveita í Maiduguri staðfestir hins vegar sögu þorpsbúa. Hann segir þá hafa gert mistök með því að hunsa beiðni hermanna um að halda kyrru fyrir heima. Herforingi segir árás vígamannanna hafa byrjað síðdegis. Þeir hafi komið á níu pallbílum, vopnaðir vélbyssum. Herinn yfirbugaði vígamennina, rústaði sex bílum þeirra og lagði hald á tvo.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV