„Þorir þú að kæla eins og kelling?“

Mynd með færslu
Lea Marie Galgana, sigurvegari Íslandsmóts í ísbaði 2018  Mynd: Benedikt LaFleur

„Þorir þú að kæla eins og kelling?“

06.06.2018 - 20:21

Höfundar

Lea Marie Galgana sló nýtt met á Íslandsmóti í ísbaði í Grindavík á dögunum þegar hún sat í ísbaðinu í fjörutíu og tvær mínútur og tuttugu sekúndur. „Þetta var tala sem ég var ekki að búast við að ná og var ekki einu sinni að reyna að ná,“ segir Lea. Sigurinn kom Leu mikið á óvart en þetta er í fyrsta skipti sem hún tekur þátt í keppninni.

Fyrri methafi var Vilhjálmur Andri Einarsson, sigurvegari mótsins 2017, sem þá sat í rúmar 20 mínútur. Bætti Lea því metið um helming. Í öðru sæti var Algirdas Kazulis sem sat í rúma 41 mínútu, og í því þriðja Sigurður J. Ævarsson, sem sat í 35 mínútur. 

„Fyrstu mínúturnar fara í allri hreinskilni í að hugsa um hvað þetta er hrikalega kalt,“ segir Lea. Eftir það skipti öllu máli að ná stjórn á önduninni og reyna að leiða hugann frá kuldanum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt LaFleur

Var mikil kuldaskræfa

Lea heyrði fyrst af ísböðum þegar hún sá sjónvarpsviðtal við Vilhjálm Andra fyrr á árinu, þar sem hann ræddi verkjastillandi og heilsubætandi áhrif þeirra á eigin líðan. Þá var hún sjálf í langvarandi meðferð við vefjagigt og tengdum verkjum, og var henni gert að taka sterk lyf sem höfðu miður góð áhrif á líðan hennar.  

Í kjölfar þess hafi hún skráð sig á Wim Hof námskeið á vegum Primal Iceland. Aðferðin feli í sér kuldaþjálfun og öndunarstjórnun. Lea segir námskeiðið hafa skilað miklum árangri og stórbætt bæði líkamlega og andlega heilsu hennar. 

Íslandsmeistarinn mælir heilshugar með ísböðum fyrir alla sem áhuga hafa á bættri vellíðan. Sjálf segist hún hafa verið mikil kuldaskræfa áður en hún tók af skarið og byrjaði að stunda köld böð. Sigur hennar sýni að „ef einhver lítil kelling út í bæ getur gert þetta, þá geta allir gert þetta,“ segir Lea og slær á létta strengi. „Þorir þú að kæla eins og kelling?“ spyr hún að lokum.

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt LaFleur

Tengdar fréttir

Mannlíf

Mannslíkaminn hefur ótrúlegt kuldaþol