Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson - Strandabyggð
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti í dag að ráða Þorgeir Pálsson í starf sveitarstjóra í Strandabyggð. Þorgeir tekur við af Andreu K. Jónsdóttur. Fjórtán umsóknir bárust um starfið.

Þorgeir hefur starfað sem framkvæmdastjóri eigin fyrirtækisins sem heitir Thorp ehf. og hefur kennt alþjóðasamskipti og verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Þá hefur hann kennt við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. Þorgeir hefur starfað við margvísleg ráðgjafarstörf tengd stefnumótun og stjórnun sem og ferðaþjónustu- og sjávarútvegsverkefni hér á landi og erlendis. Þorgeir er með BSc-próf í sjávarútvegshagfræði og diplómu í alþjóðaviðskiptum frá háskólum í Noregi og MBA-próf í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Þorgeir var framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða á Ísafirði árin 2008-2010 og á árunum 2015-2016 stýrði hann stefnumótunarvinnu sveitarstjórnar Strandabyggðar en hann var búsettur á Hólmavík á árinum 2013-2016.

Þorgeir hyggst nú flytja á Hólmavík ásamt sambýliskonu sinni Hrafnhildi Skúladóttur en saman eiga þau fjögur börn. Gert er ráð fyrir því að Þorgeir hefji störf 1. ágúst.