Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þörf á tiltekt í Öskjuhlíð

17.07.2015 - 09:59
Horft yfir Reykjavík í átt að Landspítalanum frá Öskjuhlíð.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Tiltekt er hafin í Öskjuhlíð í Reykjavík. Þar var mikil þörf á að grisja enda hefur lítið verið gert af því síðustu ár. Óvenjumikið er um brotin tré í skógum borgarinnar eftir slæmt vetrarveður.

Björn Júlíusson, rekstrarstjóri útmarka borgarinnar, hefur umsjón með skógum innan borgarmarkanna. Hann segir að skógarsvæði í borginni séu látin halda sér eins náttúruleg og hægt er en þau séu manngerð og þarfnist viðhalds.

Almennt viðhald standi yfir í skóglendinu í Öskjuhlíð. „Þetta er eðlileg grisjun,“ segir Björn. „Það var komin þörf á tiltekt.“

Hann segir að tré hafi farið illa í vetur. „Það brotnaði þó nokkuð mikið og við erum að taka brotnu trén. Þetta sé ekki bara vegna þess að veður var slæmt í vetur. „Trén eru líka alltaf að hækka og þá taka þau meiri vind á sig,“ segir Björn.

Mikil grisjunarþörf sé almennt í skóglendi borgarinnar. Auk Öskjuhlíðar nefnir Björn Elliðaárárdal og skóglendi í Breiðholti. „Það má segja að þetta hafi safnast upp," segir hann. Eitthvað hafi verið grisjað undanfarin ár en ekki nóg svo að nú þurfi að taka vel til hendinni.

Eitt svæði sé tekið fyrir í einu. Björn segir að fljótlega, að verkinu í Öskjuhlíð loknu, verði ráðist í tiltekt í Elliðaárdal.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV