Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þórdís Kolbrún kjörin varaformaður

18.03.2018 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var nú á fjórða tímanum kosin varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fékk hún 95,6 prósent atkvæða. Af 753 gildum atkvæðum fékk hún 720. Þetta er í fyrsta skipti sem Þórdís Kolbrún sækist eftir þessu embætti. Hún sagði að kjörinu loknu að hún væri afar þakklát og hana hefði ekki grunað að hún fengi svo góða kosningu. Í samtali við fréttastofu sagði Þórdís Kolbrún að hún teldi að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi sterkur af landsfundi og sameinaður.

Áður hafði Bjarni Benediktsson verið endurkjörinn formaður  með 96,2 prósent atkvæða. Af 738 gildum atkvæðum fékk Bjarni 710. Bjarni sagðist aldrei hafa tekið það sem sjálfsögðum hlut að sækja umboð sitt til landsfundar en kosningin nú í upphafi kjörtímabils væri honum mjög dýrmæt.

Áður en atkvæðagreiðslan hófst var Ólafar Nordal fyrrverandi varaformanns og ráðherra minnst með einnar mínútu þögn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt tillögu miðstjórnar að skipa framtíðarnefnd sem mun hafa það hlutverk að endurskoða skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins. Tillaga liggur fyrir landsfundinum um að allir flokksmenn fái að kjósa forystu flokksins rafrænt en yfir fimmtíuþúsund manns eru flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Ef marka má ræður á fundinum eru um það skiptar skoðanir, hvort landsfundur eigi að kjósa forystuna eða allir flokksmenn, en tillögunni verður vísað til nýrrar framtíðarnefndar og hugsanlega tekin fyrir á næsta landsfundi. 
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV