Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þórdís Kolbrún „á ærið verkefni fyrir höndum“

14.03.2019 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, telja að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir eigi ærið verkefni fyrir höndum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir athyglisvert að einum stjórnarflokki hafi tekist að knýja annan stjórnarflokk til að láta ráðherra víkja.

Fyrr í dag var greint frá því að Þórdís Kolbrún myndi bæta á sig dómsmálaráðuneytinu en hún er einnig ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Logi setti ákveðið spurningarmerki við þetta enda biði hennar erfitt verkefni þegar ferðaþjónustan á Íslandi stæði á krossgötum og millidómsstigið væri í uppnámi. „Hún er hæf stjórnmálakona og ég vona að hún beri gæfu til að leita til okkar fremstu sérfræðinga til að hjálpa sér við þetta flókna verkefni.“

Undir þetta tók Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, mikið verk væri framundan hjá Þórdísi Kolbrúnu enda stæði réttarríkið á krossgötum [eftir dóm MDE]. Henni sýndist þó sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefði að einhverju leyti tekið Landsréttarmálið í fangið eftir að „Sjálfstæðisflokknum mistókst herfilega að koma hér á öðru dómstigi í landinu.“ Þórhildur sagði þetta mikinn pakka en hún hefði þó trú á Þórdísi. Hún benti jafnframt á að í dag hefði verið talað um að þetta væri aðeins tímabundið. „Ég hlýt að vona að þetta tímabundna þýði bara örfáar vikur eða þar til Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið hver verður nýr ferðamálaráðherra.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að æskilegt hefði verið að ríkisstjórnin segði öll af sér, ekki vegna þessa máls heldur ýmsum öðrum málum. Pólitíkin hefði engu að síður orðið nokkuð flóknara þegar nú væri ljóst að einn stjórnarflokkurinn hefði látið annan stjórnarflokkinn knýja sig til að láta ráðherra úr sínum röðum víkja. „Það getur varla boðað gott fyrir stjórnarsamstarfið.“ Því á sama tíma væri óvissa um mörg stór mál. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV