Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þora líka að ögra viðkvæmum viðhorfum

Mynd:  / 

Þora líka að ögra viðkvæmum viðhorfum

16.02.2019 - 15:00

Höfundar

Þótt við séum misdugleg við að básúna þær höfum við öll skoðanir. Sumir kjósa að láta móðan mása á samfélagsmiðlum, aðrir hringja í útvarpsstöðvar eða skrifa í blöðin en örfáir Íslendingar hafa það beinlínis að atvinnu að láta skoðanir sínar í ljós með myndrænum hætti.

Pólitísk satíra er líklega nokkurn veginn jafngömul pólitíkinni sjálfri. Skopmyndir, í því formi sem við þekkjum þær, urðu hins vegar ekki vinsælar fyrr en um miðja 19. öld. Í dag er sérstakur flokkur fyrir skopmyndir innan Pulitzer-verðlaunanna, virtustu blaðamannaverðlauna heims, en flestir flokka skopmyndateiknara einhvers staðar mitt á milli. Þeir eru ekki beinlínis blaðamenn, en þeir eru ekki hefðbundnir listamenn heldur.

Halldór Baldursson hóf skopmyndaferil sinn á Viðskiptablaðinu árið 1994. Hann hefur teiknað í Fréttablaðið daglega frá 2005 og ef eitthvað er að marka merkingarnar á myndunum hans er hann kominn upp í 3.659 stykki.

„Ég var svolítill lúði í skóla og fékk kikk út úr því að teikna fólk, náði athygli þannig,” segir Halldór.

Hann átti sér fyrirmynd í nafna sínum Halldóri Péturssyni teiknara og eignaðist ungur bók um hann en einnig man hann eftir því hvað honum fannst Morgunblaðsmaðurinn Sigmund frábær. Halldór hugsaði með sér að starf skopmyndateiknarans hlyti að vera það besta í heimi en var að eigin sögn líklega nógu raunsær til að ætla að það gæti aldrei orðið.

„Maður svona stækkar og þroskast og vitkast og þá heldur maður auðvitað að maður eigi að verða eitthvað eins og arkitekt eða grafískur hönnuður eða myndlistarmaður eða eitthvað. Það kom sjálfum mér svolítið á óvart að ég skyldi aftur lenda í bernskudraumnum. Og enda með að fara að teikna aftur skopmyndir.”

Vill ekki vera vondur við fólk

Auðvitað eru myndirnar hans Halldórs misgóðar og hitta ekki alltaf í mark. Honum þykir samt oft vænt um þær myndir líka. Hann segist sjaldan fá hörð viðbrögð en maður er kannski ekkert rosalega góður skopmyndateiknari ef allir eru alltaf ánægðir með mann eða hvað?

Mynd með færslu

„Nei, maður þarf að vera á einhverri línu þarna og þora að vera ögrandi, líka gagnvart einhverjum viðhorfum sem eru viðkvæm. Ég held ég skilji oft eftir einhverja útgönguleið fyrir fólk af því að ég hef heldur ekkert svo mikla trú á því að ég viti sannleikann alltaf. Ég held ég hafi stundum svona 60 til 80 prósent rétt fyrir mér, frekar en 100 prósent, og læt það flakka. Stundum finnst mér eins og fólk eigi einhvern séns í myndunum mínum, þó ég sé að gagnrýna það. Ég held það sé hægt fyrir fólk að komast út úr brandaranum án þess að lenda í vondum málum. Ég vil ekkert vera vondur við fólk sko.”

Það að „vera vondur” er um margt flókið hugtak. Það er ekkert sem réttlætir hryðjuverkaárásir, hótanir og morð – en var það mannvonska af Jyllandsposten eða Charlie Hebdo að birta skopmyndir af Múhameð spámanni, vitandi að það að teikna hann yfir höfuð teldist til guðlasts í flestum greinum íslamstrúar? Á að ritskoða myndir sem geta verið móðgandi fyrir einstaklinga eða hópa upp að því marki að viðkomandi líti á það sem árás eða hatursorðræðu?

„Ég er svona frekar málfrelsismegin en það er eitthvað vegasalt þarna á milli. Maður segir ekki hvað sem er við hvern sem er hvenær sem er, einhvern tíma þarftu að taka tillit til hatursorðræðunnar,” segir Halldór. „En ég ætti að halda að tildæmis trúmál, að skopmyndateiknarar eigi að fá að segja sína skoðun á trúmálum og menn verða þá bara að vera ósammála og birta aðra skopmynd á móti. Við verðum einhvern veginn að hafa umburðarlyndi gagnvart skoðunum þó þær séu slæmar.”

Halldór minnist á kollega sinn, Helga Sigurðsson hjá Morgunblaðinu sem lendir stundum í orðahríð sökum skoðana sinna. Halldór finnst fólk oft taka þær of nærri sér enda sé mikilvægt í samfélagi tjáningarfrelsis að fá að heyra sem mest og bregðast svo við því, fremur en að hatrið fái að grassera undir niðri.

„Ég myndi halda að það væri mikilvægt að fólk tjái sig meira heldur en minna og að fólk svari svo bara. Umræðan fái að fara fram og kannski ekki bara í einhverjum hástöfum og fordæmingum. Við skulum ekki gleyma því að tjáningarfrelsið er svona einn stærsti sigur mannkynssögunnar á 20. öld, það var ekkert sjálfsagt að fólk fengi að tjá sig og við skulum svolítið passa okkur að halda upp á það. Og þá er ekki þar með sagt að maður þurfi að ganga alla leið í að vera fáviti. Þá verður fólk bara að fá að heyra það og svara af hverju hann er hálfviti en ekki bara hamra niður með einhverjum látum.”

Byrjaði að teikna hauskúpur

Bjarni Helgason teiknar í Stundina undir nafninu Bjadddni - já, með þremur d-um. Hann hefur teiknað frá því að hann man eftir sér, fór á listabraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og í grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands. Í LHÍ tóku tölvurnar yfir og teikningarnar voru lagðar á hilluna fram til 2010.

„Í kjölfar bankahrunsins þá bara allt í einu átti maður svo mikinn frítíma. Það var lítið að gera í vinnunni og þá einhvern veginn kom þessi köllun aftur,” segir Bjarni. „Ég sá það þegar ég byrjaði aftur að teikna að ég var í rauninni bara á sama stað og þegar ég hætti, bara eins og 16 ára barn. Það fór ógeðslega í taugarnar á mér.”

Hann hafði búist við því að með aldrinum hefði hann náð betri tökum á því að teikna, þrátt fyrir að hafa ekkert æft sig. Hann ákvað að bæta úr skák og teikna eina hauskúpu á dag í heilt ár til að verða betri. Hann byrjaði á einföldum skissum en smám saman útfærði hann kúpurnar betur og betur og að endingu voru þær komnar í nokkurs konar skopmyndastíl. Þá ákvað hann að senda ritstjórn Stundarinnar línu.

„Svo einhvern veginn áttar maður sig fljótt á því að það er meira en bara að segja það að teikna skopmyndir,” segir Bjarni. Hann var feginn því að blaðið kom aðeins út mánaðarlega í fyrstu.

„Svo breyttu þau blaðinu fljótlega og fóru að gefa út blaðið hálfsmánaðarlega sem ég fékk mikið stresskast yfir, en lét mig samt hafa það.”

Bjarni og Sigmundur í faðmlögum

Dægurmenning er eins konar rauður þráður í gegnum verk Bjarna í Stundinni. Hann parar saman pólitík og poppkúltúr til að búa til skemmtilega dýnamík úr ólíkum hugmyndum. Þannig sýnir örsnögg yfirferð á myndunum hans þingmennina af Klausturbar sem Simpsons-persónur, Bjarna Ben sem Gollri úr Hringadróttinssögu og ofurölvi íslenska krónu sem vísar í nýlega kvikmynd með einlægri bón sinni: Lof mér að falla. Ein slík mynd kemur sérstaklega upp í huga hans, þegar hann er spurður hvort hann sjái eftir einhverri teikningu.

„Maður passar sig að fara ekki yfir strikið. Það var kannski ein sem kannski gæti hafa farið yfir strikið, sem ég sé ekki eftir en var fulllangt gengið,” játar hann. „Klovn 2 bíómyndin. Það var veggspjald þar sem þeir lágu svona allsberir í hnipri. Þá voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur við völd og það var svona mikið brómans milli Bjarna og Sigmundar Davíðs þannig að ég teiknaði þá allsbera í faðmlögum. Eftir á að hyggja var það kannski aðeins of langt gengið.”

Mynd með færslu

Bjarni, líkt og Halldór, segist hafa fullt frelsi við störf sín. Raunar sé hann nánast ekki í neinum samskiptum við ritstjórn Stundarinnar nema þegar hann sendir þeim myndir.

„Í grunninn eru þetta bara mínar pólitísku skoðanir, þó maður reyni að hafa eitthvað hlutleysi litast allt af hvar maður staðsetur sig í pólitík.”

Hann segist þó ekki viðkvæmur fyrir gagnrýni. Stundum fái myndirnar hans mikinn stuðning en eins gerist það að hann fái bara fimm „læk” á myndir á Facebook.

„Oft heldur maður að eitthvað slái í gegn og svo gerir það ekki og svo heldur maður að eitthvað floppi sem síðan slær í gegn. Maður veit í rauninni aldrei, það er svo erfitt að skjóta á hvað maður heldur að virki. Eina leiðin til að vita það er bara að setja það í loftið sko,” segir Bjarni.

„Svo hefur maður líka fengið athugasemdir. Einhvern tíma var ég með einhverja ádeilu á Sjálfstæðisflokkinn og þá skrifaði einhver hver borgar fyrir þennan áróður. Það er auðvelt að svara því. Þetta er óborganlegt.”

Finnur fyndna flötinn á viðkvæmum málum

Nýjasta mynd Bjarna er dæmi um mynd sem hann bjóst ekki við að fengi mikla athygli en fór svo á flug. Á myndinni er engin persóna, aðeins hálfluktar bakdyr og talblaðra innan úr þeim þar sem stendur: „Jæja, alltaf nóg að gera, okkur vantar 25 sjálfboðaliða til að ljúga kynferðisofbeldi upp á Jón Baldvin og svo vantar einn annan til að dulbúast sem túristi á Klausturbar. Við hliðina á dyrunum er skilti með merkingunni „Leynifélag íslenskra samsæriskvenna.”

 

Mynd með færslu

„Þetta er bara dæmi um að kalla bullshittið sem er í gangi,” segir Bjarni. „Mér fannst þetta eitthvað svo aumir tilburðir til að afskrifa það sem fólk er að segja, bara sem eitthvað samsæri. Þá sá ég bara fyrir mér þennan félagsskap sem er alltaf að búa til þetta samsæri upp á þessa karlmenn (...) Greyið karlmenn sem eru alltaf að koma sér í einhver vandræði og það er aldrei þeirra sök.”

En skyldi það aldrei koma fyrir að Bjarni sé tregur til að fara út í eitthvað mál vegna þess hve viðkvæmt það er í samfélaginu?

„Nei, það eiginlega frekar kallar meira á mann ef það viðkvæmt, að einhvern veginn reyna að finna einhvern fyndin flöt á því.”

Grár köttur er á dagskrá Rásar 1 klukkan fjögur á föstudögum. Hægt er að hlusta á þátt vikunnar í heild sinni í spilaranum hér að ofan, en í honum er jafnframt rætt við bókmenntafræðinginn Úlfhildi Dagsdóttur um myndmál, og Sigmund og Halldór Pétursson um skopmyndir sem listform.

Tengdar fréttir

Leiklist

Þurfti að fyrirgefa sjálfri sér