Thomas dæmdur í nítján ára fangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Thomas Møller Olsen var í dag dæmdur til nítján ára fangelsisvistar fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur í janúarmánuði og stórfellt fíkniefnasmygl. Föður Birnu voru dæmdar fjórar milljónir króna í miskabætur og móður hennar 3,5 milljónir króna. Thomas var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna sem fór fram í Héraðsdómi Reykjaness klukkan hálf tvö í dag. Þetta er með þyngstu fangelsisdómum sem menn hafa fengið fyrir morð.

Neitaði sök

Thomas lýsti sig saklausan af ákærunni um morðið á Birnu en játaði sök um fíkniefnasmyglið. Verjandi hans krafðist sýknu af báðum ákæruliðum. Hann sagði að þrátt fyrir játun yrði að sýkna Thomas af smyglákærunni. Það væri vegna þess að íslensk yfirvöld hefðu brotið gegn þjóðréttarskuldbindingum með því að handtaka Thomas utan íslenskrar lögsögu. Að auki hefðu fíkniefnin komið í íslenska lögsögu vegna þess að íslensk yfirvöld hefðu snúið Polar Nanoq við þegar skipið var á leið til Grænlands.

Krafðist þyngri refsingar en sextán ára

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari krafðist þess að Thomas yrði dæmdur til minnst átján ára fangelsisvistar, ekki sextán ára eins og algengast er í manndrápsmálum. Hún taldi að fyrir morðið og fíkniefnabrotið ætti Thomas að fá þyngri dóm. Kolbrún sagði að átján ár væru algjört lágmark. Hún sagði ljóst að öll gögn málsins bentu til sektar Thomasar og því væri enginn vafi á því að hann hefði myrt Birnu.

Réttarhöldin yfir Thomasi fóru fram í þremur hlutum, frá því upp úr miðjum júlí fram til 1. september. Framburður Thomasar tók miklum breytingum frá því sem hann hafði sagt í yfirheyrslum hjá lögreglu fyrstu dagana eftir að hann var handtekinn.

Með þyngstu dómum

Það hefur fjórum sinnum gerst að menn hafi verið dæmdir til þyngri refsivistar en kveðið er á um í dóminum yfir Thomasi í dag, á lægra dómstigi. Þeir dómar hafa þó oftast verið mildaðir. Tveir sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru dæmdir til lífstíðarfangelsis og árin 1990 og 1993 voru menn dæmdir í 20 ára fangelsi. Í öðru tilfellinu var það annað morðið sem maðurinn var sakfelldur fyrir og var hann þá enn á skilorði vegna dómsins sem hann fékk fyrir fyrra morðið. Lífstíðardómarnir voru báðir mildaðir í Hæstarétti, sem og annar tuttugu ára dómurinn.

Ef Hæstiréttur staðfestir nítján ára dóminn yfir Thomasi verður þetta næstþyngsti endanlegi dómurinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi