Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þolinmæði aðalvopnið gegn lúsmýbiti

06.07.2018 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Svæsin tilfelli af lúsmýbiti hafa komið upp í Mosfellsbæ í vikunni. Þetta segir læknir á heilsugæslu Mosfellsbæjar. „Þetta er ekkert hættulegt en fólki líður illa. Þetta er þrálátt og það getur verið mikil bólga í þessu en aðalvopnið gegn bitunum er þolinmæði,“ segir Anna María Hákonardóttir, læknir.

Anna María segir að lúsmý virðist vera á sveimi en erfitt sé að segja til um hvar flugurnar séu nákvæmlega og hvar ástandið sé verst. „Við höfum séð nokkur ansi svæsin tilfelli núna. Eins og með moskítóbit þá eru þau ákveðinn tíma á ári. Þá virðist vera einhvers konar tímabil þar sem við erum að sjá þetta,“ segir hún.

Líkjast moskítóbitum

María segir jafnframt að bit eftir lúsmý sé ekki ósvipað og moskítóbit. „Þetta eru ekki ólík bit og moskítóbit og geta í mörgum tilfellum verið alvarlegri og þeim getur fylgt meiri bólga. Þetta gengur yfir á nokkrum dögum. Við mælum með mildu sterakremi,“ segir Anna María. Í sérstaklega slæmum tilvikum fær fólk lyfseðilsskyld krem eða töflur við bitunum.

Anna ítrekar að engin hætta sé á ferðum og að flugurnar beri ekki með sér neina sjúkdóma. Anna María segir að besta leiðin til að koma í veg fyrir lúsmýið sé að loka gluggum, hefðbundin flugnanet dugi ekki vegna smæðar lúsmýsins.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV