Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjónusta við fólk með heilabilun of flókin

04.03.2019 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: læknablaðið
Jón Snædal öldrunarlæknir segir að flækjustig í þjónustu við fólk með heilabilun sé allt of hátt. Fjölmargir komi að þjónustunni og þeir stefni ekki alltaf í sömu átt. Jón hefur tekið að sér að móta stefnu í málefnum þeirra sem eru með heilabilun.

Helga Eyjólfsdóttir, sérfræðingur í öldrunarlækningum sagði í fréttum að enginn vissi í raun hve margir þjást af heilabilun hér á landi því engin skrá er til yfir það. Biðlistar eru langir og brýnt að kortleggja vandann. Jón á að skila drögum að stefnu í málefnum fólks með heilabilun fyrsta júní.  
 
„Ég hef gert þetta reyndar áður fyrir þetta sama ráðuneyti fyrir liðlega áratug og það var skýrsla sem hefur sómt sér vel í skúffu ráðuneytisins síðan.“

Tímasetningin hafi verið óheppileg rétt fyrir hrun.   
 
„Sko ef ég á að nefna eitt atriðið þá er það að flækjustigið er í raun og veru allt of mikið.“

Öll þjónustan sé á sömu hendi í nágrannalöndunum - þ.e.a.s. sveitarfélaganna. Hér á landi hafi verið rætt um að færa hana til sveitarfélaganna og var byrjað á því að færa málefni fatlaðra þangað.
 
„Og þá fór bara allt upp í loft út af peningamálum og síðan hefur enginn haft kjark í sér til að færa þennan stóra flokk líka til sveitarfélaganna.“

Núna er hluti þjónustunnar á vegum ríkisins, annar hluti á vegum sveitarfélaga og síðan koma að henni fjölmörg samtök og félög.
 
„Þetta eru svo margir aðilar sem koma að þessu og hafa á þessu skoðun og eru kannski ekki að toga alltaf nákvæmlega í sömu átt.“
 
Jón nefnir sem dæmi mann sem býr heima og fær þjónustu sem sveitarfélagið sér um. Þegar þarf að auka þjónustuna við hann er það sparnaður fyrir sveitarfélagið að hann fari á hjúkrunarheimili sem ríkið borgar fyrir. Ef sveitarfélagið sæi um það líka væri sparnaður í því að hann byggi áfram heima.
 
„Þannig að þetta eru svona fjárhagslegir kraftar sem verka andstætt heildarhagsmunum okkar. Þetta er eitthvað sem virkilega þarf að taka á og skiptir máli.“