Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjónusta TNT liggur niðri eftir tölvuárás

29.06.2017 - 12:04
epa06053536 A laptop screen displays a message after it was infected with ransomware during a worldwide cyberattack, in Geldrop, Netherlands, 27 June 2017 (issued 28 June 2017). Kaspersky Lab reported that the malware, despite resembling 'Petya'
 Mynd: EPA - ANP
Fyrirtækið TNT hraðsendingar er eitt af mörgum sem urðu fyrir barðinu á viðamikilli tölvuárás á þriðjudag og þjónusta þess liggur tímabundið niðri. Starfsmaður fyrirtækisins staðfesti þetta í samtali við fréttastofu en starfsfólk TNT á Íslandi hefur fengið tilmæli frá aðalskrifstofu fyrirtækisins í Amsterdam um að tjá sig ekki frekar um málið á meðan það er í skoðun.

„Í kjölfar utanaðkomandi truflana í tölvukerfi TNT urðum við að loka tímabundið fyrir aðgang að myTNT-þjónustunni,“ segir á vef fyrirtækisins og er fólki bent á að hringja í þjónustuver fyrir frekari upplýsingar. Vegna þess að skrifstofa fyrirtækisins á Íslandi notar ekki sama kerfi og aðalskrifstofan var skaðinn hér á landi ekki eins alvarlegur og þar en net og sími lágu tímabundið niðri á sumum skrifstofum TNT.

Tölvuþrjótarnir beindu spjótum sínum meðal annars að bönkum og fjármálastofnunum í Úkraínu. Fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki urðu einnig fyrir árásinni. Má þar nefna sendingaþjónustuna FedX, sem er móðurfyrirtæki TNT, danska skipaflutningafyrirtækið Maersk og bandaríska lyfjafyrirtækið Merck, samkvæmt frétt CNN.

Árásin er gerð með hugbúnaði sem hannaður er til að taka gögn í gíslingu og krefjast lausnargjalds ef eigandi þeirra vill fá aðgang að þeim á ný, ekki ósvipað WannaCry-hugbúnaðinum sem notaður var í viðamiklar tölvuárásir í maí. Óljóst er hverjir stóðu fyrir árásinni á þriðjudag. 

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV