Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þjóðvegurinn hættulegasti ferðamannastaðurinn

08.03.2017 - 09:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Broddi Bjarnason
Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir boðuðum niðurskurð í samgönguáætlun. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, segir með ólíkindum að nauðsynlegum framkvæmdum skuli enn og aftur vera ýtt út af borðinu. Hún bendir á að ríkið hvetji ferðamenn til að ferðast um landið allt árið um kring, og þá sé nauðsynlegt að gera þeim það kleift.

 

„Við erum að tala um að ná að hvetja ferðamenn til að fara víðar, ferðast um landið allan ársins hring - og þar er ríkið og stendur með okkur í því - en það er ekki hægt á sama tíma þá að draga úr framkvæmdum þannig að þeim sé ekki gert kleift að sækja þá staði sem þeir vilja sækja,“ segir Helga í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. 

Hún segir að mikill ávinningur sé fólginn í því að bæta samgöngur. „Þannig náum við þessari eftirsóttu dreifingu og þessu jafna álagi og þannig náum við líka að tryggja ferðaþjónustu allan ársins hring, og þannig að efla heilsársstarfsemi greinarinnar, bæta framleiðni og svo framegis.“

Aðspurð um vegatolla segir Helga ferðaþjónustuna tilbúna til að ræða slíkt, en bendir á að tekjur ríkisins af greininni muni að öllum líkindum aukast um 20 milljarða á þessu ári, úr 70 í 90 milljarða. Þá fjármuni megi nýta til vegaframkvæmda og uppbyggingar í ferðaþjónustu.

„Samgöngur eru lífæð ferðaþjónustunnar,“ segir Helga. Þá sé þetta spurning um öryggi Íslendinga sem og ferðamanna. „Þjóðvegurinn er í raun og veru hættulegasti ferðamannastaður landsins.“