Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjóðvegi 1 lokað vestan Kirkjubæjarklausturs

06.08.2018 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Karl Harðarson
Þjóðvegi eitt skammt vestan Kirkjubæjarklausturs hefur verið lokað. Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir veginn. Umferð er beint um Meðallandsveg. Vegaxlir hafa skemmst en klæðning er ekki farin í sundur. Vatn flæðir yfir veginn á um fimm hundruð metra kafla við útsýnisstað í Eldhrauni.

Grafa er á leiðinni til að laga veginn en ekki hefur verið ákveðið hvort taka þurfi hann í sundur til að hleypa flóðavatninu í gegn, að sögn Ágústar Freys Bjartmarssonar, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal . Talsverð umferð er núna á svæðinu. 

Guðmundur Kristján Ragnarsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Vík í Mýrdal, var staddur í Eldhrauni þar sem vatn flæðir yfir veginn, rétt fyrir klukkan tíu.

„Það er bara verið að loka veginum. Hann er byrjaður að skemmast vegna vatns sem fæðir yfir veginn,“ segir Guðmundur. „Það flæðir alls staðar upp úr hrauninu sá ég á leiðinni,“ segir Guðmundur.

Skaftárhlaup náði hámarki í gær og vonast Ágúst til þess að það sjatni í flóðavatninu í Eldhrauni þegar líður á daginn.

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, segir að það lengi töluvert leiðina fyrir ferðafólk að aka Meðallandsveg. Vegurinn sé ekki góður, aðeins malbikaður að hluta og því seinfarin. Búast megi við því að ferðin lengist um hálftíma hið minnsta. 

Mynd með færslu
Umferð hefur verið beint um Meðallandsveg.