Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þjóðskjalavörður undrandi á sölutillögu

Handrit að ávarpi Halldórs Kiljan Laxness, sem hann flutti fyrir Sænsku akademíuna er hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1955.
 Mynd: - - Landsbókasafn

Þjóðskjalavörður undrandi á sölutillögu

12.12.2015 - 18:42

Höfundar

Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður segir að það hafi komið sér í opna skjöldu að selja eigi húsnæði Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg 162 í Reykjavík. Meirihluti fjárlaganefndar leggur þetta til í breytingatillögu við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár.

Húsið hentar safninu ágætlega

Samkvæmt tillögunni á að kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir safnið. Eiríkur segir að húsnæðið í gamla Mjólkursamlagshúsinu henti safninu ágætlega. Þar hafi verið fjárfest fyrir hundruð milljóna króna undanfarin ár og safnið sé vel staðsett nálægt stjórnsýslu landsins. Hann segist vera leita sér upplýsinga.

Kom honum í opna skjöldu

„Ég hef sent erindi í ráðuneyti menntamála og óskað eftir upplýsingum um hvað sé á ferðinni. Þetta kemur mér gjörsamlega í opna skjöldu því fyrir liggur stefna ráðuneytisins og safnsins um að þetta sé framtíðarhúsnæði Þjóðskjalasafnsins"

Ótímabær tillaga

Eiríkur segist ekki hafa fengið neina  skýringu á því hvers vegna þessi tillaga kemur fram. „Ég las mér hins vegar til á vefmiðli Morgunblaðsins í síðustu viku að það væri skoðun á kreiki um að þetta væri hentugra undir verslanir, íbúðir eða einhverja aðra starfssemi. Það er ekkert lítið mál að flytja safnið og það liggur engin áætlun fyrir um það. Ef menn ætla að selja þessa lóð og húsin þá er að mínu viti nauðsynlegt að fyrir liggi áður en það er gerð einhver áætlun um hvort einhver þörf sé á að flytja safnið. Hvort það þjóni hagsmunum safnsins og samfélagsins að flytja safnið. Þá þarf að meta það á faglegum forsendum og finna því annan stað áður en farið er að selja."  Eiríkur segir að sér finnist tillagan ótímabær. Hann hafi ekki heyrt neitt frá ráðherra mennta- og menningarmála.