Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðir og þjóðarmorð

Frá mótmælum við sendiráð Mjanmar í Kúala Lúmpúr í Malasíu 25. nóvember. - Mynd: EPA / EPA

Þjóðir og þjóðarmorð

09.09.2018 - 08:00

Höfundar

„Þjóðin og þjóðríkið, eins og við skiljum þessi fyrirbrigði í dag, eru tiltölulega nýtilkomin, þau eru afleiðingar byltinga og lýðræðisvæðingar frá síðari hluta átjándu aldar og fram á þessa öld, þegar nýlendur losnuðu loks undan oki Vesturlanda.“ Gauti Kristmannsson fjallar um þjóðir og þjóðarmorð í Víðsjárpistli.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Þjóðir eru skrýtin fyrirbæri. Okkur finnst samt flestum auðvelt að skilja hvað þjóð er, svona í svipinn, en þegar við skoðum það nánar verður málið allt miklu flóknara. Það kann að vera einfalt hér á Íslandi, og þó, nú er fimmti hver íbúi landsins af erlendum uppruna, eins og sagt er, og þeim fer fjölgandi. Margir eru orðnir íslenskir ríkisborgarar og þar með hluti af þjóðinni, eða hvað? Og um leið og við lítum til Belgíu, Bretlands, Írlands eða Finnlands, svona næst okkur, þá sjáum við að það eru fleiri en eitt opinbert tungumál í þessum löndum, svo ekki getur það verið bara tungumálið sem gerir þjóðir að þjóðum, þrátt fyrir hnyttiyrði Max Weinreichs að „tungumál sé mállýska með her og flota“ og það tvöfaldar kannski íroníuna að hann sagði þetta á jiddísku, sem hvorki er með her né flota nokkurs staðar.

Við Íslendingar erum samt þjóð, held ég, og íslenska er tungumál þótt við eigum hvorki her né flota, við erum nokkuð sammála um það, þótt nokkrir lögfræðingar hafi viljað draga það í efa fyrir nokkrum árum, þegar þeir héldu því fram að hugtakið þjóð væri „án merkingar“, af því þeir voru andmæla því að þjóðin gæti átt fiskimiðin sem eru innan 200 mílna lögsögu íslenska þjóðríkisins. Því það er jú vitað að til eru svokölluð þjóðríki og þau eru reyndar grunnur alls skipulags alþjóðamála í dag, hvort sem menn líta til alþjóðastofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar eða sambanda á borð við Evrópusambandið, þjóðríkið svonefnda er alltaf sá aðili sem talar fyrir ákveðna hópa fólks sem eru innan tiltekins þjóðríkis og eiga sér einmitt alltaf flagg og jafnvel her og flota.

Þjóðin og þjóðríkið, eins og við skiljum þessi fyrirbrigði í dag, eru tiltölulega nýtilkomin, þau eru afleiðingar byltinga og lýðræðisvæðingar frá síðari hluta átjándu aldar og fram á þessa öld, þegar nýlendur losnuðu loks undan oki Vesturlanda. En þótt þjóðríkin hafi sannarlega veit stórum hópum lýðréttindi sem þeir höfðu ekki áður hafa þau einnig verið dugleg í hagsmunaátökum við granna sína og fleiri og staðið fyrir skelfilegum styrjöldum sem eiga sér engan sinn líka og þar hefur drifkrafturinn verið þjóðernishyggjan, sem predikað hefur leynt og ljóst að hver þjóð sé einstæð, og að allir aðrir eigi ekki rétt til að koma og vera hjá þeim nema að uppfylltum miklum skilyrðum. Þeir sem að utan koma eru sem sagt annars flokks af því þeir eru af öðru þjóðerni. Þetta hefur reyndar lagast mikið innan Evrópu með frjálsri för innan ESB og EES, en við sjáum núna merki um að óféleg gretta þjóðernishyggjunnar rísi upp víða í álfunni, nú þegar flestir íbúar hennar sem upplifðu síðasta, eða öllu heldur næstsíðasta, hildarleik hennar eru fallnir frá eða háaldraðir.

Það var einmitt í síðari heimsstyrjöld sem hugtakið þjóðarmorð varð til. Slíkir glæpir hafa vissulega verið framdir áður í mannkynssögunni, en það var aldrei gert af slíkum fítonskrafti og þá. Maðurinn sem fann upp þetta hugtak, Raphael Lemkin (Rafał Lemkin), var pólskur gyðingur og lögfræðingur og hann áttaði sig á morðæði nasista meðan á styrjöldinni sjálfri stóð með því að rannsaka opinber gögn og löggjöf þeirra og sá hann hvert stefndi með því einu saman. Lemkin, sem starfaði sem saksóknari í mörg ár fyrir stríð, hafði raunar haft mikinn áhuga á glæpum gegn mannkyni löngu áður og rannsakaði hann til dæmis þjóðarmorð Tyrkja á Armenum 1915-17 og öðlaðist þannig skilning á því drápsæði sem þjóðarmorð felur í sér.

Hugtakið sjálft er líka flóknara en það virðist vera við fyrstu sýn og hefur oft verið um það deilt í framhaldinu og hafa menn nefnt fleiri útgáfur af þessum glæp á borð við þjóðernishreinsanir eða árásir á tiltekinn hóp vegna trúar hans, kynhneigðar eða einhvers annars sem notað er til að skilgreina hann sem „öðruvísi“. Hugmyndir Lemkins voru teknar upp í sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem á ensku heitir „Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide“ og er þar hugtakið „genocide“ komið frá Lemkin, þar sem hann blandar saman grískum og latneskum orðstofnum fyrir fæðingu, gerð kynþátt, ættbálk og dráp. Opinbera íslenska þýðingin á heiti sáttmálans notast reyndar ekki við hugtakið „þjóðarmorð“ heldur er titillinn þessi á okkar máli: „Sáttmáli um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð“, sem er kannski nútímalegri lausn en sú sem við heyrum í almennri umræðu, ef menn vilja skilja þetta þannig að „genocide“ eigi við fleiri hópa en nákvæmlega þjóðir. Enda var sá hópur sem drepinn var í hrönnum af nasistum ekki þjóð heldur trúarhópur sem bjó meðal margra þjóða Evrópu og hafði notið fullra borgaralegra réttinda í sumum ríkjum álfunnar.

Þrátt fyrir að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið staðfestur árið 1951 virðist svo vera að þessum glæpaverkum sé lítið að linna, við höfum orðið vitni að svo mörgum slíkum voðaverkum, þjóðernishreinsunum á Balkanskaga, þjóðarmorðinu í Rúanda og nú síðast morðum og þjóðernishreinsunum á Róhingjum í Mjanmar, svo fáein dæmi séu nefnd. Lítill vafi leikur á því að drifkrafturinn þarna er þjóðernishyggja, hin illa gretta hennar, sem sér allt svart og hvítt og staldrar ekki við til að hugsa eitt augnablik eins og sjá mátti af glæpum nasista, en Þýskaland var líkast til ein menntaðasta þjóð veraldar á sínum tíma. Og núna rísa upp flokkar í Evrópu sem nánast grímulaust taka upp hugmyndir nasista um óæskilega hópa og það skrýtnasta við það er sú staðreynd að þeir eru hvað sterkastir eftir því fjarlægðin við „aðkomumennina“ er meiri. Þannig eru til að mynda miklu færri innflytjendur og flóttamenn í austurhluta Þýskalands þar sem fylgið við fasistana er mest. Og eins og gerðist í Þýskalandi millistríðsáranna rísa þeir upp með vopnum lýðræðisins og láta eins og þeir séu fulltrúar almennings í baráttu við „aðkomumenn“ sem mergsjúga heilaga þjóðina. Reyndar hafa ýmsir hagfræðingar bent á að án þessa innflutnings fólks stæði efnahagur margra Evrópulanda miklu verr og eftirlaunakerfin væru komin á slig ef ekki væri fyrir þetta unga fólks sem tekur að sér óvinsælustu störfin í samfélaginu. En þjóðernishyggjan hlustar ekki á rök.

Við höfum verið blessunarlega laus við slíka flokka hingað til þótt þeir hafi reynt að troða sér á framfæri. En við getum ekki treyst því að það verði alltaf, vegna þess að þjóðernishyggja er langt frá því að vera eitthvað sérstök eða bundin við tilteknar þjóðir. Hún er sýki sem fest getur rætur alls staðar og ekki síst ef hún fær hvatningu frá einhverjum sem framarlega standa í samfélaginu. Þess vegna er það á ábyrgð allra sem vilja ekki nærast á vessum þessarar sýki að mæta slíkri orðræðu af einurð og krafti.