Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Þjóðin vill ráðherra fyrir Landsdóm

26.09.2010 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem eru tekjulágir eru frekar á því að stefna eigi fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdóm en þeir sem hafa hærri tekjur. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup.

Gallup spurði nærri 1200 manns hvort draga eigi þau Geir. H. haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiessen eða Björgvin G. Sigurðsson fyrir Landsdóm. Þetta var netkönnun gerð frá 16. til 23. september. Svarhlutfallið var 65%. Svörin litast mjög af því hvað fólk segist mundi kjósa.

30% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vill ákæra Geir, 26% Árna, 33% Ingibjörgu og 31% Björgvin.

Öllu fleiri úr hópi kjósenda Samfylkingarinnar vilja hins vegar stefna einhverju fjórmenninganna fyrir Landsóm. Flestir Árna, eða 69%, 65% Geir, en öllu færri eigin fóki. 45% vilja ákæra Ingibjörgu og 31% Björgvin.

Rúmlega tveir þriðju kjósenda Framsóknar vilja að Geir, Árni og Ingibjörg svari til saka en aðeins um helmingur þeirra að Björgvin mæti Landsdómurum.

Kjósendur Vinstri grænna, og einnig þeir sem segjast myndu kjósa annað en fjórflokkinn, eru miklu herskárri. 84% Vg-kjósendanna vilja draga Árna fyrir dómarana, 82% Geir, 76% Ingibjörgu og 61% Björgvin.

93% þeirra sem afhuga eru fjórflokknum vilja að Árni setjist á sakamannabekkinn, 81% Geir, 46% Ingibjörg og helmingur Björgvin.

Þeir sem yngri eru vilja líka miklu frekar að fjórmenningarnir mæti dómurunum. Þá vilja hinir tekjulægri líka miklu frekar að þau verði látin svara til saka.

Um eða innan við við fjórðungur þeirra sem hafa undir kvartmilljón í fjölskyldutekjur á mánuði vilja ákæra, en aðeins um eða innan við helmingur þeirra sem eru með meira en milljón.

Fréttastofa hefur rætt við fjölmarga þingmenn um helgina, -og svo mikið er víst að það er ekkert í hendi um hvort fjórmenningarnir verða ákærðir. Lagarök, flokkslínur, kunningskapur og jafnvel tæknileg útfærsla skiptir þarna máli.

Tillagan um að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra, Geir, Ingibjörgu, Árna og Björgvin gengur lengra en sú þar sem Björgvini er sleppt og því afgreidd fyrst. Ef sjálfstæðisþingmennirnir 16, bróðurpartur samfylkingarþingmannanna 20 og nokkrir framsóknarmannanna 9 segja nei er fyrri tillagan fallinn. Þrátt fyrir að nokkrir framsóknarmenn, 15 þingmenn VG og 3 þingmenn Hreyfingarinnar segi já. Tæpara er væntanlega með ákæru á þrjá ráðherra, en hún gæti einnig fallið.

Verði atkvæði greidd um hvern og einn ráðherra skiptir röðin miklu. Ef byrjað yrði á Geir og ákveðið að ákæra hann fyrir tilstilli meirihluta Samfylkingarinnar, jafnvel þótt nokkrir yrðu á móti, gætu Sjálfstæðismenn komið með krók á móti bragði og setið hjá við afgreiðslu á ákæru á hendur Ingibjörgu. Ef VG, Hreyfingin og sex framsóknarmenn segðu já, en þrír framsóknarmenn og öll Samfylkingin nei, yrði hugsanlega samþykkt að stefna Ingibjörgu með 24 atkvæðum gegn 23.

Þarna gæti spilað inn í að 8 af 12 ráðherrum sem sátu í hrunsríkisstjórninni svifu beint aftur inn á þing, þar af 3 beint í ráðherrastól. 3 af fyrrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru hættir, en 3 eru á þingi.

Allir sem sátu fyrir Samfylkinguna, nema Ingibjörg Sólrún, eru enn þingmenn og hafa hlotið vegtyllur. Tveir hafa gengt stöðu þingflokksformanns og 3 verið ráðherrar.

Um 8% þingheims, voru þannig ráðherrar í hrunsstjórninni, og véla nú um hvort ákæra skuli 4 fyrrum samherja, og draga þá fyrir Landsdóm þar sem við þeim gæti blast fangelsisdómur vegna afglapa í starfi sem ráðherrar í þessari títtnefndu ríkisstjórn hrunsins.